Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Óheppinn útskriftarárgangur í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 4. febrúar 2024 kl. 09:40

Óheppinn útskriftarárgangur í Grindavík

Krakkarnir í útskriftarárgangi Grunnskóla Grindavíkur verða seint sakaðir um að hafa haft lukkudísirnar með sér þegar kemur að skemmtilegum tímamótum á skólagöngu þeirra. Upp er komin staða sem setur sjálfa útskriftarferðina í vor, í óvissu. Nokkrir foreldrar barna í hópnum, hafa tekið af skarið og ætla sér að láta ferðina til Kaupmannahafnar verða að veruleika.

„Síðasta skólaárið fer að líða undir lok hjá tíunda bekk Grunnskóla Grindavíkur, ástandið er hreint ekki eins og það ætti að vera en ég get fullyrt að allir eru að gera sitt besta til þess að koma til móts við unglingana á þessum, já fordæmalausu tímum. Ég held að það þurfi að leita lengi eftir óheppnari árgangi en þeim sem stefnir á útskrift úr Grunnskóla Grindavíkur í upphafi sumars,“ segir Eva Lind Matthíasdóttir, ein foreldranna, en hún rakti hrakfallasögu hópsins á Facebook-síðu sinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkt og í mörgum öðrum skólum tíðkast það að nemendur Grunnskóla Grindavíkur fari í skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði, 2008 árganginum tókst það hins ekki vegna Covid-19 faraldursins. Það var brugðið á það ráð að fara í skólabúðir á Laugarvatni í níunda bekk en tveimur vikum áður en til þeirrar ferðar átti að koma var búðunum lokað vegna myglu í húsnæði skólans og af þeirri ferð varð ekki. Lokaferð níunda bekkjar var því lengd um sólarhring og var stefnan sett á ferðalag um Suðurlandið með alls konar afþreyingu og viðkomu í Vestmannaeyjum, en vegna veðurs var ferðin til Eyja slegin af og í staðinn ráfuðu börnin um miðbæinn á Selfossi.

Pizzuveisla frá Papas á litlu jólunum í tíunda bekk varð ekki að veruleika þar sem að litlu jólin voru haldin á höfuðborgarsvæðinu í stað Grindavíkur.

Það er ljóst að ekki verður kveikt á blysum á Ásabrautinni þegar rútan keyrir þau úr árshátíðarkvöldverðinum á síðasta árshátíðarballið þeirra. Það er því óhætt að segja að allt sem börnin hafa beðið eftir, verði í allt öðruvísi formi en verið hefur.

Börnin eru að leggja lokahönd á fjáröflun lokaferðalagsins en í haust var tekin ákvörðun um að lokaferðalag tíunda bekkjar, yrði heimsókn til Kaupmannahafnar þar sem að flest allar ferðir hafa farið úrskeiðis. Í dag er staðan þó þannig að fjáröflun ferðarinnar hefur farið skelfilega úrskeiðis þar sem aðeins ein fjáröflun af nokkrum hefur farið fram.“

Eva hélt áfram. „Í september var farið í fyrstu fjáröflunina, sem var sala á lakkrís. Fjölskyldur tíundu bekkingana eru langt frá því að vera í þeirri stöðu að geta staðið á bak við fjáraflanir í því ástandi sem við erum í núna, tvístruð um allt og stuðningsnetið dreift í mörg bæjarfélög. Það að koma út vörum tengdum fjáröflunum er eitthvað sem er erfitt að leggja á grindvískar fjölskyldur í dag, ofan á allt skutlið sem hefur bæst inn í dagana okkar nú þegar. Ég er samt alveg viss um að jólasokkar, klósettpappír, frosnar pizzakúlur og fleira sniðugt hefði slegið í gegn hjá fjölskyldum okkar og vinum.

Nemendurnir í tíunda bekk vinna nú hörðum höndum að útgáfu skólablaðsins en ekki verður gengið í fyrirtæki í Grindavík þetta árið og safnað styrktarlínum í blaðið sem og happdrættisvinningum fyrir tíunda bekkjar happdrættið sem á fastan sess í samfélaginu okkar heima í Grindavík.

Mig langaði því til að athuga hvort einhverjir hér á Facebook séu til í að aðstoða okkur foreldra tíunda bekkinga í Grunnskóla Grindavíkur, við að óska eftir styrkjum frá fyrirtækjum, því öll vitum við að margt smátt gerir eitt stórt. Okkur langar svo mikið til að hjálpa þeim við að fylla skólablaðið af styrktarlínum/auglýsingum og safna frábærum vinningum í happdrættið þeirra, þannig að þau geti selt fleiri happdrættismiða.

Með því að deila þessum pistli trúum við því að við náum til nógu margra fyrirtækja svo að börnin okkar komist öll með í útskriftarferð Grunnskóla Grindavíkur, einnig væri æðislegt að ef þið þekkið til fyrirtækja sem gætu verið líkleg til að styrkja hópinn, þið gætuð laumað að okkur nöfnum á fyrirtækjum eða taggað þau hér fyrir neðan.

Fyrir hönd foreldra 2008 árgangs grindvískra barna,“ skrifaði Eva Lind í lok pistils síns.

Uppfært:

Vegna fjölda fyrirspurna hefur verið tekin ákvörðun að einnig sé tekið við frjálsum framlögum.

Eigandi reiknings og ábyrgðarmaður er Páll Erlingsson, umsjónarkennari.

Reikn.nr. 0143-15-380852

Kennitala: 260965-5659