Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ógleymanleg og afar dýrmæt lífsreynsla
Sunnudagur 2. febrúar 2020 kl. 08:34

Ógleymanleg og afar dýrmæt lífsreynsla

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar var haldin í sjötta sinn dagana 14. desember 2019 til 12. janúar 2020 í Suðurnesjabæ. Mér hlotnaðist sá heiður að vera boðið að taka þátt sem einn af þremur íslenskum listamönnum. Samtals tóku 45 listamenn af átján mismunandi þjóðernum úr ýmsum geirum listaheimsins þátt; listmálarar, myndhöggvarar, tónlistarfólk, dansarar, skáld, o.s.frv. Mér varð það ljóst frá fyrsta degi að hér var kominn hópur fólks sem var afskaplega skapandi og fært í sínum listgreinum enda ber afrakstur hátíðarinnar þess gott vitni. Í upphafi hátíðar hittumst við listafólkið og spjölluðum, fengum hugmyndir, þreifuðum okkur áfram og sumir ákváðu að vinna einir, aðrir ákváðu að vinna saman. Flestir bjuggu saman, borðuðu saman og hjálpuðust að þegar á þurfti að halda. Vinnusemin var gríðarleg. Margir unnu daga jafnt sem nætur enda var opnun sýninga og viðburða 4. janúar og tíminn því naumur til að klára verk og undirbúa sýningar. Ég hef sjaldan orðið vitni að jafn miklum dugnaði, ástríðu, sköpunargleði, samkennd, áhuga, ákafa og vinnusemi. Enn og aftur sannaðist hve listin er mikilvæg. Fólk af ólíkum þjóðernum, trúarbrögðum með ólíkan bakgrunn vann saman sem eitt. Samkenndin var hreint mögnuð. Listin sameinar og dregur fram það besta í fólki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bakvið þetta allt saman hélt manneskjan sem skipulagði hátíðina, Mireya­ Samper, utan um óteljandi þræði. Það þurfti að útvega efni, aðstöðu, flytja fólk, útvega mat, skipuleggja þrif, setja reglur og sinna óteljandi málum sem komu upp. Það var magnað að sjá hvernig þetta gekk allt upp og í raun ótrúlegt og það þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi sýnt á sér klærnar svo um munaði. Mireya og hennar frábæra aðstoðarfólk á heiður skilinn.

Fyrir mig sem tónlistarmann var þetta ógleymanleg og afar dýrmæt lífreynsla. Ég þurfti að stíga langt út fyrir þægindarammann; vinna með hugmyndir sem voru mér framandi og vinna með fólki sem fékk mig til að skoða hlutina í nýju ljósi og veitti mér innblástur til að gera hluti sem mér hefði ekki dottið áður í hug. Ég kem frá verkefninu fullur innblásturs og með kollinn fullan af nýjum hugmyndum og fullt af nýjum vinum út um allan heim. Þetta var mikil gjöf og eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í á mínum ferli. Þetta var mögnuð reynsla að fá að taka þátt í þessu viðamikla verkefni sem Suðurnesjabær getur verið stoltur af að hýsa og veita aðstöðu. Þótt hátíðin sé ekki á allra vitorði hér heima þá er hún þekktari á heimsvísu. Á því fékk ég staðfestingu frá erlendum vinum og kunningjum sem vissu af henni.

Takk Ferskir vindar og Mireya Samper fyrir að veita okkur næringu og gera bæinn okkar að betri og skemmtilegri stað til að búa á. Hátíðin er gullmoli sem vekur athygli á mínum góða heimabæ um víða veröld. Listin er næring sálarinnar. Hún sameinar okkur og veitir okkur innblástur og gleði.

Halldór Lárusson,
tónlistarmaður og skólastjóri
Tónlistarskóla Sandgerðis.