Ófríða stúlkan snýr aftur
- Bók sem fór í útlán árið 1943 var skilað rúmum 70 árum síðar.
„Langflestir viðskiptavinir bókasafnsins skila bókum aftur til okkar á tilsettum tíma, nú eða óska eftir framlengingu á láninu. Það er bón sem starfsfólk bókasafnsins verður við með glöðu geði, enda fátt leiðinlegra en að fá senda til sín rukkun,“ segir í frétt frá Bókasafni Reykjanesbæjar.
Sumar bækur geta þó skemmst eða týnst eins og raunin er með bókina sem ber þann óskemmtilega titil Ófríða stúlkan. Bókin er eftir höfundinn Anne-Marie Selinko og bókinni er lýst sem: „Nútíma skáldsaga frá Vínarborg“. Þýðing sögunnar var í höndum Ívars Guðmundssonar.
Bókin fór í útlán árið 1943 og þá ekki frá Bókasafni Reykjanesbæjar, heldur Lestarfjelagi Keflavíkurhrepps.
Bókin fannst í flutningum fyrir stuttu og hefur varðveist nokkuð vel í þann tíma sem hún var í útláni.
Bókin er nú til sýnis í Bókasafni Reykjanesbæjar og minnir okkur góðfúslega á að skila bókum á tilsettum tíma eða óska eftir framlengingu.