Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Öflugt vísindastarf og heilbrigðiskerfi mikilvæg fyrir samfélög
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
sunnudaginn 24. maí 2020 kl. 08:57

Öflugt vísindastarf og heilbrigðiskerfi mikilvæg fyrir samfélög

Keflvíkingurinn Sylvía Rut Káradóttir er læknanemi við Kaupmannahafnarháskólann í Danmörku. Þar býr hún ásamt kærasta sínum, Eyþóri Inga Einarssyni. Sylvía er ánægð með Danmörku, segir það mikinn kost að geta hjólað allt, eignast nýja vini og árstíðirnar í Kóngsins séu fallegar.

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég flutti út út af náminu mínu en ég hef lengi haft það á bak við eyrað að vilja að búa í Danmörku. Eftir að hafa reynt tvisvar við inntökuprófið heima fékk ég að vita að ég hefði komist inn í Danmörku og ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt út.“

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

„Já, ég sakna allra heima ennþá meira núna því það er ekki svo létt að fljúga heima á þessum tímum. Það er líka erfitt að geta ekki hitt nýju bróðurdóttur mína sem fæddist í janúar.“

– Hve lengi hefurðu búið erlendis?

„Við Eyþór fluttum hingað út í janúar 2019.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa í Kaupmannahöfn?

„Að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini, fallegar árstíðir, að geta hjólað allt og að sjálfsögðu að fá þann möguleika að verða góð í dönsku!“

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Áður en COVID-19 skall á var ég vön að vakna snemma og hjóla af stað í skólann, hitta bekkjarfélaga mína og læra saman. Það eru bæði stórir fyrirlestrar og bekkjartímar og alls konar tilraunir á tilraunastofum skólans, svo enginn dagur er eins. Eftir skólann fer ég stundum í jóga og undirbý mig fyrir næsta skóladag.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Já, ég ætla að gera það. Sumarið er besti tími ársins.“

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

„Mín áhugamál eru dans og jóga. Ég hef auðvitað ekki geta farið og stundað það meðan þetta stendur yfir. Félagslífið í skólanum er gott svo ég reyni að nýta það til að hitta vini og fara á alls konar viðburði, sem er auðvitað öllu aflýst núna. Það er ekki margt sem maður getur gert en sem betur fer hefur veðrið verið gott og maður getur notið þess að vera úti í sólinni.“

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

„Ég var hér í Danmörku í fyrra yfir sumarið og það var yndislegt. Við ætlum að vera hér úti þar sem við erum bæði með vinnu hér. Vonandi náum við svo að fljúga heim og hitta fólkið okkar eitthvað í sumar. Annars reyni ég líka að plata alla að koma út til mín en það er ekkert skemmtilegra en að fá fjölskyldu og vini hingað út.“

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

„Ég var nú ekkert með mikil plön fyrir utan skólann. Ég ætlaði reyndar til Íslands í apríl, í tíu ára fermingarafmæli sem var svo frestað.“

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

„Það er bara mjög svipað og heima, Danirnir voru reyndar fljótari að setja samkomu-bannið á. Þeir hafa líka lokað landinu sem gerir það auðvitað erfitt að ferðast heim, sem vanalega er svo létt. Það var létt á samkomubanninu eftir páska þar sem leikskólar og grunnskólar opnuðu aftur ásamt hárgreiðslustofum og því um líkt. Það er ennþá lokað á veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og skemmtistöðum og öllum hátíðum í sumar hefur verið aflýst, eins og t.d. Hróaskeldu.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur? Hefur margt breyst?

„Já, mjög margt hefur breyst. Þetta tekur alveg á andlega, sérstaklega að geta ekki verið með fjölskyldunni. Ég er nýbúin í mjög stóru prófi, sem ég tók heima, búin að vera að undirbúa mig fyrir það síðastliðinn mánuð. Það er sameiginlegt rými hérna þar sem við búum en það brýtur aðeins upp á daginn að geta farið þangað niður að læra.“

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

„Hversu mikilvægt það er fyrir samfélög að stuðla að öflugu vísindastarfi og heilbrigðiskerfi.“