Of Monsters and Men spila á Hróaskeldu
Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men, sem skipuð er m.a. Suðurnesjafólkinu Brynjari Leifssyni og Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, mun spila á dönsku tónlistarhátíðinni Hróaskeldu næsta sumar. Þetta var tilkynnt á heimasíðu hátíðarinnar í morgun.
Hóraskelduhátíðin er ein stærsta tónlistarhátíð í heimi. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni í ár eru Rihanna, Queen of the Stone Age, Sigur Rós og Kraftwerk. Ásgeir Trausti mun einnig leika á hátíðinni sem fram fer 29. júní -7. júlí næstkomandi.
„Við erum hrikalega spennt. Nokkrir úr sveitinni hafa farið á hátíðina áður og segja að þetta sé geðveikt. Við erum í skýjunum með að fara að spila á Hróaskeldu,“ segir Brynjar Leifsson, Keflvíkingur og gítarleikari sveitarinnar.
Sveitin er að túra um Bretland þessa dagana og er uppselt á alla tónleika þeirra næstu vikurnar. Eftir ferðina um Bretland heldur sveitin til Evrópu en í lok mars mun sveitin svo halda til Suður-Ameríku og til Bandaríkjanna í kjölfarið. Íslenski tónlistarmaðurinn Mugison hitar upp fyrir Of Monsters and Men á Evróputúrnum sem hefur gengið vonum framar að sögn Brynjars.
Hljómleikaferðin hófst í Asíu í janúar þar sem sveitin spilaði í Japan og Singapúr áður en haldið var til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Auk þess að leika á Hróaskeldu er sveitin einnig bókuð á þekktar tónlistarhátíðir í ár líkt og Cochella í Kaliforníu, Rock Werchter í Belgíu, og V Festival sem haldin er í Englandi. Afar þétt dagskrá er hjá sveitinni næstu mánuði en dagskrá þeirra er fullbókuð fram í ágúst þegar sveitin tekur sér hlé frá tónleikahaldi.
Brynjar Leifsson mundar hér gítarinn á tónleikum með sveitinni nýverið.
Of Monsters and Men spila nánast daglega fyrir fullu húsi. Hér er mynd frá tónleikum þeirra í Ástralíu í byrjun febrúar.