Óður til Ellýjar á Sjóaranum síkáta í Grindavík
Sannkallaðir stórtónleikar verða sunnudagskvöldið 5. júní á Sjóaranum síkáta í Grindavík. Þá verður söngkonan Guðrún Gunnarsdóttir ásamt hljómsveit og Ragga Bjarna með tónleikana „Óður til Ellýjar“ í íþróttahúsinu kl. 20:30 og verður ekkert til sparað til að gera þessa tónleika sem glæsilegasta. Meðal annars mun barnabarn Ellýjar koma fram og segja frá ömmu sinni.
Þann 28. desember síðastliðinn hefði söngkonan Ellý Vilhjálms orðið 75 ára en sem kunnugt er á hún ættir að rekja til Suðurnesja. Af því tilefni hefur söngkonan Guðrún Gunnarsdóttir ákveðið að heiðrað minningu Ellýjar með þessum tónleikum sem fluttir hafa verið víðar og fengið feikna góða dóma.
Guðrún gaf út plötu árið 2003 með upptöku af tónleikunum „Óður til Ellýjar“ og hlaut sú útgáfa Íslensku tónlistarverðlaunin sem besta platan í flokknum „Ýmis tónlist“ það árið.
Það gefst því einstakt tækifæri í Grindavík á sjómannadeginum 5.júní að heyra lögin hennar Ellýjar flutt af landsliði tónlistarfólks, þeim Guðrúnu Gunnars, Agnari Má Magnússyni, Sigurði Flosasyni, Birgi Bragasyni og Hannesi Friðbjarnarsyni. Sérstakur gestur á tónleikunum er heiðursmaðurinn Ragnar Bjarnason.
Miðaverð aðeins 2.500 kr. í forsölu. 3.000 kr. við innganginn. Forsala miða fer fram í Kvikunni á opnunartíma hússins milli kl. 10:00 – 17:00. Sími: 420-1190.