Öðruvísi tónleikaröð í Grindavíkurkirkju
Næstkomandi miðvikudag hefst „Föstutónleikaröðin: Leyndardómur trúarinnar" í Grindavíkurkirkju. Um er að ræða sex tónleika á miðvikudagskvöldum kl.20: 17.febrúar, 24. febrúar, 3. mars, 10. mars, 17.mars og 24.mars. Meðal flytjenda verða: Eyþór Ingi Jónsson, Hörður Áskellsson og Inga Rós Ingólfsdóttir, Guðný Einarsdóttir, Guðmundur Sigurðsson og Gunnar Gunnarsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Björn Steinar Sólbergsson.
Áhersla er lögð á að tengja tónlistina við trúarlegt inntak föstutímans með því að flytjendur útskýra tengslin fyrir áheyrendum á auðskiljanlegan hátt. Að auki verður einn passíusálmur Hallgríms Péturssonar tekinn fyrir á hverjum tónleikum.
Tónleikarnir hefjast kl. 20 og aðgöngueyrir er 1000 kr. og er innheimtur svo að tónleikaröðin geti staðið undir sér í framtíðinni. Tónleikaröðin hlaut styrk frá Menningarráði Suðurnesja.
Eyþór Ingi Jónsson, organisti Akureyrarkirkju, ríður á vaðið á öskudagskvöld og leikur verk eftir "B-in 3" Buxtehude, Böhm og Bach ásamt orgelspuna.
---
Myndin er af Eyþóri Inga Jónssyni.