Öðruvísi aðventa í Akurskóla
Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, segir að aðventan í skólanum hafi verið öðruvísi í ár en mörg önnur ár. „Við vorum þó með uppbrotsdag í skólanum 2. desember þar sem nemendur skreyttu stofurnar sínar og tóku þátt í keppni um fallegustu jólahurðina.
Við höfum fengið rithöfunda til að lesa fyrir börnin á Zoom eða Teams og það hefur verið skemmtilegt. Nemendur okkar í 1. bekk fengu upplestur frá rithöfundum. Bergrún Íris las úr bókum sínum fyrir nemendur okkar ásamt nemendum Stapaskóla, Akurs og Holts. 4–7. bekkur fékk síðan upplestur frá Ævari vísindamanni. Þó svo að þessir frábæru höfundar hafi ekki getað heimsótt okkur þá dóum við ekki ráðalaus og nýttum okkur tæknina. Gekk þetta mjög vel og voru nemendur mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag.“
Undanfarin ár þá hefur foreldrafélagið verið með jólaföndur fyrir alla fjölskylduna í skólanum. Í ár bauð félagið nemendum í 7.–10. bekk upp á mandarínur og piparkökur í skólanum 2. desember og sendi svo föndurpakka heim með nemendum í 1.–6. bekk. Skemmtilegt framtak hjá foreldrafélaginu og góð lausn á þessum skrýtnu tímum að sögn Sigurbjargar.
„Litlu jólin verða einnig með öðru sniði í ár en önnur ár. Við munum ekki fara öll saman í íþróttahúsið og dansa í kringum jólatréð en tré hefur verið sett upp í salnum í ár og hver og einn hópur getur komið og dansað. Þá verður helgileikurinn leikinn af nemendum í 5. bekk og tekinn upp og sendur í hverja stofu þar sem nemendur geta horft á hann. Lesin verður jólasaga og nemendur skiptast á pökkum.“
(Ofargreindur pistill var saminn fyrir jólablað Víkurfrétta sem kom út 16. desember. Vegna Covid-19 smits sem kom upp á leikskóla í grenndinni var Litlu jólunum aflýst í skólanum.)