Oddur Ingi er að fara sóló
Oddur Ingi þórsson hefur verið í tónlistargeiranum allt frá unglingsaldri en þá var það rappið sem heillaði. Síðar meir stofnaði hann ásamt efnilegum tónlsitarmönnum úr Keflavík hljómsveitina Rými þar sem Oddur var gítarleikari og söngvari. Sveitin gaf m.a. út plötuna Unity, for the first time árið 2002 en platan fékk einróma lof gagnrýnenda á þeim tíma. Síðar gekk Oddur til liðs við hljlómsveitina Lokbrá sem náði ágætis frama og eru þeir piltar að vinna að nýju efni um þessar mundir, þar er Oddur bassaleikari og syngur einnig. Oddur byrjaði síðasta haust í Kvikmyndaskóla Íslands, á handrita- og leikstjórnardeild.
„Því miður er skólinn búinn að ganga í gegnum erfiða tíma, þar sem mikil óvissa var með framtíðina og vafamál hvort skólinn myndi yfir höfuð halda áfram. Skólinn var loks settur á mánudaginn, en án mín. Þetta er dýrt nám og mér finnst óvissan eftir þetta rifrildi menntamálaráðuneytis og skólans enn of mikil. Ég hef samt heyrt í bekkjarfélögum sem byrjuðu aftur og þau eru öll í toppgír og það er mikill metnaður í gangi.“ Oddur segist vonandi geta byrjað eftir áramót og klárað námið en hann ætlar að sjá til.
Annars er hann með verkefni á snærunum sem hann ætla að klára fyrst. „Ég er nefninlega að fara að taka upp plötu, maður er að fara sóló! Mínir helstu ráðgjafar og aðstoðarmenn eru Sveinn Helgi, Valgeir Gestsson (Jan Mayen menn) og Trausti Laufdal (Lokbrá). Góðir og mætir menn allir. Stefnan er að klára upptökur í nóvember en útgáfudagur er óákveðinn. Vonandi bara snemma næsta vor. Þetta rímar ágætlega við týndu Lokbrá plötuna (sem hefur verið tilbúin í nokkur ár) og svo er Trausti líka að leggja lokahönd á plötuna sína. Það verður nóg að gera næstu vikurnar.“
„Ég og Trausti erum einu meðlimir Lokbrá sem enn búa á landinu og við erum búnir að dunda okkur við að klára öll mix og nú á bara eftir að henda henni í masteringu. Við gáfum frá okkur lag nýlega, Koss Mjallhvítar(Hlusta má á lagið hér efst), og það fer vonandi að heyrast eitthvað. Annars erum við mest að þessu fyrir sjálfa okkur. Það er ákveðið „closure“ í að klára þessa plötu svo bandið geti hætt með góðri samvisku. Við erum líka allir komnir á fullt með önnur verkefni. Baddi hljómborðsleikari er búinn að búa í London í nokkur ár að læra leikstjórn og leik og Óskar elti hann fyrir ári síðan að læra upptökustjórn,“ segir Oddur sem ætlar sér að hafa það náðugt um helgina.
„Helgin verður sennilega róleg. Ég var að kaupa mér svaka fína macbook pro tölvu og ég ætla að reyna að kynnast henni nánar um helgina og sennilega leika mér mikið í garage band og photo booth. Það er svo kannski að maður kíkji á Valda og co í Valdimar sem spila á Rósenberg á laugardagskvöldinu. Svo auðvitað lít ég við á Kaffibarnum, maður verður náttúrulega aðeins að sýna sig og sjá aðra.“
Hljómsveitin Rými í anddyri Víkurfrétta á sokkabandsárunum.