Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Óbó og gítartónleikar í Listasafni Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 16. september 2003 kl. 11:52

Óbó og gítartónleikar í Listasafni Reykjanesbæjar

Miðvikudagskvöldið 24. september munu Peter Tompkins óbóleikari og Pétur Jónasson gítarleikari halda tónleika í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum.og hefjast tónleikarnir kl.20.  Á efnisskránni eru verk fyrir óbó og gítar eftir Napoleon Coste, Fernando Sor, Manuel de Falla, Áskel Másson og  Hildigunni Rúnarsdóttur auk þjóðlaga frá  Katalóníu.

Peter Tompkins stundaði hljóðfæranám í Royal Academy of Music í Lundúnum og lauk einleikaraprófi í óbóleik frá Royal College of Music í Lundúnum.  Hann hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1988.  Allt frá komu sinni hefur hann tekið virkan þátt í tónleikahaldi hérlendis sem einleikari og flytjandi hljómsveitar-, kammer- og kirkjutónlistar.  Hann hefur sérstaklega lagt sig eftir  flutningi barokktónlistar á upprunaleg hljóðfæri og er einn af frumkvöðlum í barokkóbóleik á Íslandi. Hann er formaður Bachsveitarinnar í Skálholti og leikur reglulega með hollenska barokkfiðluleikaranum Jaap Schröder.  Peter var heiðurslaunþegi menningarsjóðs Garðabæjar árið 2000 og situr í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna (FÍT).  Peter Tompkins hefur komið fram á tónleikum víða utan Íslands, m.a. á Norðurlöndum, í Mið-Evrópu, Bandaríkjunum og Rússlandi.  Leik hans má heyra á ýmsum geisladiskum með landsþekktum flytjendum.

Pétur Jónasson hóf nám í gítarleik níu ára að aldri hjá Eyþóri Þorlákssyni í Tónlistarskóla Garðabæjar og var síðar við framhaldsnám hjá Manuel López Ramos við Estudio de Arte Guitarrístico-skólann í Mexíkóborg.  Að loknu burtfararprófi þar árið 1980 hélt hann til Spánar og var hann einkanemandi gítarleikarans José Luis González um tveggja ára skeið.  Árið 1986 var hann valinn til að leika fyrir Andrés Segovia á námskeiði sem haldið var í Los Angeles.  Pétur hefur haldið fjölda einleikstónleika á Norðurlöndum, í Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Austurlöndum fjær.  Hann hefur komið fram í útvarpi og sjónvarpi og leikið inn á hljómplötur og geisladiska., m.a. verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hann.  Pétur hlaut heiðursstyrk úr danska Sonning-sjóðnum árið 1984 og árið 1990 var hann tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, fyrstur íslenskra einleikara. Peter Tompkins og Pétur Jónasson komu fyrst fram saman á "Vilbergshátíð" í Garðabæ árið 2001 og hefur samstarf þeirra staðið síðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024