Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nýtur þess að vera úti í náttúrunni
Bergný Jóna Sævarsdóttir.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 23. maí 2020 kl. 08:13

Nýtur þess að vera úti í náttúrunni

Bergný Jóna Sævarsdóttir ætlaði að vinna í blómabúð og verða lögga. Hún starfar sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og vinnur hjá Suðurnesjabæ.

– Nafn:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bergný Jóna Sævarsdóttir.

Fæðingardagur:

28. janúar á því herrans ári 1975.

– Fæðingarstaður:

Egilsstaðir.

– Fjölskylda:

Er barnlaus og karlmannslaus. Annars á ég foreldra, Friðbjörgu Ósk Arnbergsdóttur og Sævar Ólafsson, og tvær yngri systur, Hörpu Sif og Gunnu Lísu.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Samkvæmt gömlum minningarbókum ætlaði ég einhvern tíman að vinna í blómabúð og síðar að verða lögga. Hvorugt hefur ræst.

– Aðaláhugamál:

Fjöldi áhugamála eykst ört með tímanum. Ég nýt þess að vera úti í náttúrunni, fara í göngur, hlaupa, hjóla og fara á skíði. Ég er nýlega búin að kynnast gönguskíðum og á bæði brautar- og utanbrautarskíði. Nýjasta áhugamálið er golfið. Þá finnst mér voða gaman að fara á tónleika og í leikhús, lesa og horfa á góðar bíómyndir. Vinnan mín er einnig áhugamál sem mér finnst mikill kostur.

– Uppáhaldsvefsíða:

mbl.is, visir.is og vf.is.

– Uppáhalds-app í símanum:

Strava og Garmin held ég bara.

– Uppáhaldshlaðvarp:

Snorri Björns og einnig í Ljósi sögunnar. Annars er ég enn að læra á þessi hlaðvörp.

– Uppáhaldsmatur:

Jólamaturinn hjá mömmu, sérstaklega humarsúpan.

– Versti matur:

Ég hef aldrei verið hrifin af kjötbollum.

– Hvað er best á grillið?

Humar.

– Uppáhaldsdrykkur:

Íslenska vatnið og búbblur.

– Hvað óttastu?

Ætli köngulær og hæð sé ekki það sem ég óttast mest … eða a.m.k. oftast.

– Mottó í lífinu:

Finnska orðið SISU hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðustu ár. Það er eiginlega ekki til íslensk þýðing á því en það vísar til ákveðins hugrekkis í erfiðum aðstæðum og að ganga aðeins lengra en þú heldur að þú getir. Þetta hefur komið mér í gegnum t.d. nokkur hlaup þegar auðveldlega hefði verið hægt að gefast upp og ég hef muldrað þetta þegar ég tek „lokasprett“ í mark – í stað þess að hægja á mér eða labba SISU er hægt að nota í mörgum aðstæðum.

– Hvaða mann eða konu úr mannkynssögunni myndir þú vilja hitta?

Ég held að það væri lærdómsríkt og gagnlegt að eiga samtal við Móður Teresu.

– Hvaða bók lastu síðast?

Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ og bók sem heitir Jólasysturnar. Ég er yfirleitt með fleiri en eina bók „á náttborðinu“ í einu.

– Ertu að fylgjast með einhverjum þáttum í sjónvarpinu?

Ekki þessa dagana. En síðast datt ég inn í þættina A Million Little Things.

– Uppáhaldssjónvarpsefni?

Ég er voða hrifin af ofurhetju- og ævintýramyndum. X-men myndirnar get ég t.d. horft á oftar en einu sinni.

– Fylgistu með fréttum?

Já – aðallega á netinu, í línulegri dagskrá í sjónvarpi og í útvarpinu í bílnum.

– Hvað sástu síðast í bíó?

Little Women sem er endurgerð myndar með sama titli frá 1994.

– Uppáhaldsíþróttamaður:

Mér finnst skemmtilegt að fylgjast Arnari Péturssyni hlaupara.  Mér finnst líka aðdáunarvert hvað hann gefur af sér út í hlaupa- og íþróttasamfélagið.

– Uppáhaldsíþróttafélag:

Ég hef alltaf verið mikil Reynis- og Liverpool-stelpa. Almenningsíþróttadeild Víkings er einnig í uppáhaldi og nú er ég að æfa mig hratt og örugglega að meta Víði.

– Ertu hjátrúarfull?

Ég var það en ekki svo mikið lengur – held ég.

– Hvaða tónlist kemur þér í gott skap?

Hljómsveitin Belle and Sebastian kemur mér alltaf í gott skap.

– Hvað tónlist fær þig til að skipta um útvarpsstöð?

Þungarokk.

– Hvað hefur þú að atvinnu?

Ég ber starfstitilinn sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og vinn hjá Suðurnesjabæ. Ég fæ að vasast í alls konar verkefnum og viðfangsefnum, stórum og smáum, en öll með það að markmiðið að efla Suðurnesjabæ með einum eða öðrum hætti.

– Hefur þú þurft að gera breytingar á starfi þínu vegna COVID-19?

Já, ég og aðrir á skrifstofunni þurftum að breyta ýmsu vegna COVID-19. Ég er nýkomin inn á skrifstofuna mína aftur en við skiptum starfsstöðinni upp og flestir unnu heima. Ég sit þó nokkuð af fundum sem margir hverjir hafa breyst í fjarfundi eða fundi í stærra rými en venjulega þar sem tveggja metra reglan er virt. Mörg verkefna hafa einnig tekið breytingum og sum hver hafa verið sett á „pásu“.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Árið 2020 er að kenna mér margt og þá einna helst hversu mikilvægt það er að tileinka sér æðruleysi, aðlögunarhæfni og vera tilbúinn í breytingar með stuttum fyrirvara.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, ég er bjartsýn. Það verður nóg að gera hjá okkur í Suðurnesjabæ og svo er ég að flytja aftur heim eftir að hafa búið í Reykjavík síðustu þrettán ár.

– Hvað á að gera í sumar?

Ég ætla að vinna, koma mér fyrir á nýja heimilinu og ferðast um landið. Ég ætla einnig að reyna að hjóla, hlaupa og ganga um Reykjanesið eins og ég mögulega get.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Ég hef ekki verið dugleg að taka sumarfrí – heldur duglegri að taka haustfrí og þá hef ég stundum farið til útlanda. Ég hef þó reynt að fara í göngur um helgar á sumrin.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég myndi byrja á því að sýna þeim hvað Suðurnesjabær hefur upp á að bjóða og hvetja fólk til þess að gista hér, taka með sér hjól, gönguskó og golfsett. Ég færi með vini mína í vita- og hjólaskoðunarferð út á Stafnes með viðkomu við Stafnesvita, segja frá Básendaflóðinu, heimsækja Hvalsneskirkju, Sandgerðishöfn og svo út á Garðskagavita og jafnvel hvetja til sjósunds. Ef um er að ræða barnafólk færi ég á Þekkingarsetrið í ratleik, skoða sýninguna „Heimskautin heilla“ og fara svo í sund í Garði eða Sandgerði. Þegar þetta er búið væri Reykjaneshringurinn farinn um Ósabotna.