Nýtur þess að standa í eldhúsinu og elda góðan og hollan mat
Jóhann Friðrik Friðriksson freistar þess að komast á Alþingi
Jóhann Friðrik Friðriksson hefur verið nokkuð áberandi í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar en hann er oddviti Framsóknar og hefur forseti bæjarstjórnar helming kjörtímabilsins. Hann spreytir sig nú á vettvangi Alþingis og er í 2. sæti hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi. Hann nýtti sumarið til að undirbúa það en kappinn er liðtækur í eldhúsinu en segir að afrekin heima við séu m.a. við frágang á þvotti.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
„Sumarið var mjög skemmtilegt. Ég fór vítt og breitt um landið með fjölskyldunni og við áttum gæðastundir saman, m.a. á Suður- og Norðurlandi. Við vorum heppin með veður í fríinu, fórum í Borgarfjörðinn til vina og ættingja, spiluðum Scrabble og svo tókst mér að spila minn fyrsta golfhring í tíu ár og komst í gegnum þá raun nokkuð skammlaust.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Það kom skemmtilega á óvart hversu öflug ferðaþjónustan er orðin víða um land. Ég kynntist því reyndar vel í fyrra en það er ótrúlega mikill dugnaður í fólki, maturinn góður og þjónustan til fyrirmyndar. Það er líka gaman að sjá hvað við erum orðin dugleg að hampa því sem framleitt er á hverjum stað fyrir sig.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Borgarfjörðurinn er mér mjög kær. Ég var þar í sveit og svo eiga foreldrar mínir og tengdaforeldrar sumarhús þar og því reynum við að heimsækja þau sem oftast yfir sumarið.“
Hver er helstu afrek þín á heimilinu í hverri viku?
„Ég elda matinn á mínu heimili en það er nú kannski ekki neitt sérstakt afrek. Ég reyni eftir fremsta megni að segja börnunum mínum sögu fyrir svefninn sem þau kunna vel að meta. Helsta afrek mitt að undanförnu lýtur að þvottinum á heimilinu sem stundum hleðst upp eins og gengur og þá nýtist tíminn yfir fréttunum á kvöldin til þess að brjóta saman sokka og strauja nokkrar skyrtur í leiðinni.“
Uppáhaldsmatur?
„Heit svið eru í miklu uppáhaldi hjá mér og kótilettur í raspi. Ég reyni að koma við á Réttinum hjá Magga þegar þær eru í boði enda ómótstæðilegar með rauðkáli, grænum baunum og sultu.“
Hver er þinn styrkur í matreiðslunni?
„Ég held að ég sé ágætur í því að búa til rétti án þess að ég þurfi endilega að vera með uppskrift við höndina. Það lærist smátt og smátt. Sjálfur er ég mikið fyrir ferskar vörur og vil heldur hafa matinn einfaldan en of flókinn. Við Íslendingar erum mikið fyrir sósur og margar tegundir af meðlæti sem ég er að reyna að venja mig af. Ég held að minn styrkur í matreiðslunni sé kannski helst undirbúningur. Það skiptir máli að taka kjöt snemma út úr kæli og láta kjöt og fisk hvíla aðeins áður en maturinn er borinn fram. Mér finnst líka róandi og skemmtilegt að elda og því nýt ég þess að standa í eldhúsinu og elda góðan og hollan mat.“
Notaðir þú sumarfríið eitthvað til að undirbúa kosningabaráttuna?
„Já, ég tók þátt í prófkjörsbaráttu í júní sem var skemmtileg lífsreynsla og svo tók við gott sumarfrí. Málefnastarf Framsóknar var í gangi í byrjun ágúst þar sem ég tók virkan þátt.“
Hver er tilfinningin fyrir komandi alþingiskosningum og kosningabaráttunni?
„Mín tilfinning er góð þó svo ég viti að það er á brattann að sækja í mínu kjördæmi þar sem margir flokkar bjóða fram. Ég hef unnið að heilindum og eldmóði í þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur á undanförnum árum og barist fyrir bættum hag íbúa á Suðurnesjum. Nú vil ég gera það á Alþingi og til þess þarf ég sérstaklega stuðning í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum.“
Hver eru stærstu málin fyrir Suðurnesin sem þú setur í forgang?
„Ég hef alltaf lagt mjög mikla áherslu á heilbrigðismál á Suðurnesjum en einnig menntamál í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Keilis og bæjarfulltrúi. Ég hef góða menntun og reynslu í hvoru tveggja og veit vel hversu mikilvægt það er að ríkið jafni fjárframlög til þjónustu hér á svæðinu. Ný heilsugæsla er nú loksins komin á fjárlög og geri ég ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist við hana á næsta ári. Að því sögðu þá ættu hér að vera þrjár heilsugæslur ef tekið er mið af fjölda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla mér því að halda ótrauður áfram að berjast fyrir góðu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bættri heilsu allra íbúa í kjördæminu með góðri samvinnu. Framsókn er að leggja til 60.000 krónu vaxtastyrk til allra barna á Íslandi á ári fyrir þessar kosningar. Styrkurinn er til þess að auðvelda öllum börnum að taka þátt í íþrótta-, tómstunda- og menningarstarfi. Það er frábær fjárfesting sem léttir undir með barnafjölskyldum og veitir börnum tækifæri til þess að taka þátt í fjölbreyttu starfi óháð efnahag foreldra. Ég hef lengi barist fyrir þessu og veit að þessi stuðningur mun nýtast vel. Framsókn vill líka jafna leikinn og taka upp þrepaskipt tryggingagjald þannig að lítil og meðalstór fyrirtæki borgi minna. Það er mjög mikilvægt að styðja við atvinnulífið, sérstaklega hér á Suðurnesjum. Það skiptir máli að Suðurnesin hafi öflugan málsvara á þingi og því býð ég mig fram.“
Hvert er draumaríkisstjórnarsamstarf þitt?
„Mitt draumaríkisstjórnarsamstarf væri samstarf þar sem lögð er áhersla á að fjárfesta í fólkinu í landinu. Ísland er ekki bara höfuðborgarsvæðið og við þurfum að tryggja góða þjónustu um allt land. Það skiptir mjög miklu máli að sú ríkisstjórn sem tekur við sé tilbúin til þess að fara í raunhæfar kerfisbreytingar til þess að bæta heilbrigðiskerfið, leggi ríka áherslu á málefni eldra fólks, loftslagsmálin og áskoranir á vinnumarkaði vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Framsókn mun leggja áherslu á sín stefnumál sem hafa þegar fengið mjög góðan hljómgrunn, enda bæði raunhæf og líkleg til árangurs. Ef árangurinn í kosningunum verður góður munum við hafa tækifæri til þess að láta þau verða að veruleika, íbúum Suðurnesja og landsins alls til heilla.“