Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Nýtur sín í sveitasælunni
Keflvíkingurinn Magnús Jón Kjartansson og kona hans, Sigríður Oddsdóttir.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 18. mars 2023 kl. 10:40

Nýtur sín í sveitasælunni

Magnús Jón Kjartansson er lifandi goðsögn í íslensku tónlistarlífi en hann er Keflvíkingur og tilheyrir bítlakynslóðinni sem varð til út frá hljómsveitinni Hljómum. Maggi, eins og hann er betur þekktur, byrjaði snemma að læra á hljóðfæri og var ekki gamall þegar hann var byrjaður að spila á skemmtunum. Eftir grunnskóla flutti hann í Reykjavík vegna tónlistarinnar en þá var hann að spila með hljómsveitinni Óðmönnum. Þó svo að hann hafi flutt aftur með konu sinni, Sigríði Oddsdóttur eða Sirrý eins og hún er betur þekkt, þá var ljóst að það hentaði betur að búa á höfuðborgarsvæðinu vegna tónlistarinnar. Hann fluttist í Hafnarfjörð en svo ákváðu þau Sirrý að venda kvæði sínu í kross fyrir rúmum tíu árum síðan og fluttu í sveitina, n.tt.  í Grímsnes rétt hjá Selfossi.

Maggi og Sirrý una hag sínum vel þar. „Við Sirrý vorum búin að vera með land hér í Grímsnesinu og hennar fólk hefur verið hér með bústað. Hér höfum við verið að rækta og eitt leiddi af öðru. Við bjuggum á þremur hæðum í Hafnarfirði og tókum ákvörðun um að búa til okkar elliheimili á einni hæð í sveitasælunni. Þetta var stuttu eftir bankahrunið og auðvelt að fá alla fyrirgreiðslu, iðnaðarmenn nánast spruttu upp úr jörðinni, það var lítið að gera hjá þeim á þessum tíma. Við fengum frábæra iðnaðarmenn til að byggja þetta fyrir okkur og hér hefur okkur liðið einstaklega vel, höfum eignast mikið af góðum vinum hér í sveitinni. Það er stutt inn á Selfoss til að sækja alla nauðsynlega þjónustu og þaðan er ekki langt að fara í höfuðborgina ef þannig ber undir. Það var líka ekki til að minnka áhuga okkar Sirrýar á að flytjast hingað að við erum saman í hestamennsku, hér er einstaklega gott að vera með hesta og yfir sumarið er ég með þá nánast inni á gafli hjá mér og get farið með þá stutta vegalengd til að bíta grænt gras.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég reyni að hreyfa hestana sem mest þegar ég er heima, jafnvel daglega. Það eru frábærar reiðleiðir hér allt í kring svo við erum alveg í toppmálum hér.“

Ég reyni að hreyfa hestana sem mest þegar ég er heima, jafnvel daglega. Það eru frábærar reiðleiðir hér allt í kring svo við erum alveg í toppmálum hér.

Sveitasælan

Eins og áður kom fram er Maggi Keflvíkingur og var ungur þegar hann fluttist að heiman vegna tónlistarinnar. „Fljótlega eftir grunnskóla flutti ég í bæinn, leigði með Shady Owens og Val Emils í Fellsmúla í Reykjavík en á þessum tíma vorum við byrjuð að spila með hljómsveitinni Óðmönnum. Enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig Pétur Östlund, sem þá var tuttugu og fimm ára snillingur, nennti að vera með okkur í hljómsveit! Ég var í bænum í einhvern tíma en svo fluttum við Sirrý í Njarðvík þaðan sem hún er, eignuðust okkar fyrsta barn en svo vorum við endanlega flutt á höfuðborgarsvæðið þegar ég var rúmlega tvítugur. Við bjuggum fyrst á Hofteig í Reykjavík en settumst síðan að í Hafnarfirði og vorum þar allar götur þar til við fluttum í sveitasæluna. Hér get ég líka sinnt tónlistinni, er með skúr eða nokkurs konar „man cave“ [til skýringar, herbergi í húsi þar sem karldýrið fær að njóta sín í sinni karlmennsku, án afskipta kvendýrsins]. Þar get ég útsett fyrir kórana og tekið upp ef þarf. Ég nýt mín alltaf til hins ýtrasta inni í hellinum mínum, þar sem ég get einbeitt mér og þegar ég þarf að vera í friði,“ segir Maggi.

Magnús og Sirrý á góðri stundu í útreiðatúr.

Kórstjórn, einstaka gigg og skáldgyðjan

Maggi hefur leikið á fleiri böllum en hann getur rifjað upp. „Ég held ég geti alveg lifað án þess að spila á böllum aftur, tel mig vera búinn að afplána á þeim vígvelli. Það kemur fyrir að ég spili á einstaka tónleikum og þá finnst mér nú skemmtilegra að herma eftir sjálfum mér en öðrum. Mest snýst mín tónlist í dag um að stjórna þremur kórum; Flugfreyjukórnum, Brokkkórnum og Sönghópi Suðurnesja. Þeir kórar æfa í höfuðborginni og á Suðurnesjunum. Alltaf gaman að hafa ástæðu til að bregða sér af bæ. Það kemur líka fyrir að ég er beðinn um að spila inn á frumsamda tónlist en sem betur fer er komið svo mikið af ofboðslega hæfileikaríkum spilurum að ég passa mig bara á að vera ekki fyrir.

Ég er ekki mikið að semja í dag, ef skáldgyðjan heimsótti mig einhvern tíma þá er langt síðan hún yfirgaf mig. Ég hef aldrei verið þannig að andinn komi yfir mig og þá semji ég, ég hef samið þegar ég hef þurft þess. Ég man ekki hvaða lag ég samdi síðast, ætli það séu ekki einhver fimm ár síðan en þá gáfum við nokkrir félagarnir út plötu undir nafninu Skuggasveinar. Sú plata var laglega andvana fædd, það heyrðist ekki eitt einasta lag held ég af henni í útvarpi! Ef einhver kæmi að mér með byssu og segði mér að semja mitt besta lag til þessa, þá myndi ég nú allavega reyna bjarga lífi mínu og gefa því séns en hvort það besta kæmi veit maður aldrei. Pressan er bara engin á mér að semja í dag og þess vegna geri ég ekkert að því, er samt viss um að ég myndi geta samið undir slíkri pressu sem byssa við höfuð mér yrði.“

Upphaf ferilsins og bítlabærinn

Maggi byrjaði ungur að reyna semja. „Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að reyna semja, þá var ég í lúðrasveit og taldi mig vera semja næsta smell, skrifaði nóturnar niður og sýndi Þóri Baldurs sem var að stjórna okkur, hann nánast sendi mig öfugan heim. Svo var það líklega ekki fyrr en ég er um tvítugt sem almennileg lög fara að koma en þá pressaði Rúni heitinn Júl á mig að semja, þegar við vorum saman í Trúbroti. Fram að því hafði ég verið í Óðmönnum sem var hljómsveit sem Jóhann G. Jóhannsson nánast átti með húð og hári, hann samdi allt. Eftir Óðmenn stofnaði ég Júdas ásamt öðrum, við spiluðum mikið á böllum en gáfum líka út tvær plötur, ég minnist þess nú ekki að nein lög hafi náð almennilega fram. Fyrsti „hittarinn“ minn er líklega To be grateful með Trúbroti. Á þessum tíma vorum við Rúni mikið saman, bjuggum báðir í Keflavík og keyrðum saman á æfingar í Reykjavík og hann ýtti mér út í að fara semja. Þar sem þetta er líklega með betri lögum sem ég hef samið, þá hefði þetta einhvern tíma flokkast undir að vera ágætis byrjun. My friend and I varð líka til á þessum tíma. Eftir Trúbrot varð ég fyrsti íslenski popptónlistarmaðurinn til að gefa út sólóplötu þar sem ég samdi nánast öll lög og texta sjálfur. Hörður Torfa hafði getið út plötu með sínum lögum en með textum eftir aðra. Þessi sólóplata mín gekk mjög vel, fékk mikla spilun.

Bræðurnir og foreldararnir á gamalli mynd úr VF. F.v. aftari röð: Kjartan Már, Ingvi Jón, Viktor, Finnbogi og Magnús.
Fyrir framan eru Gauja og Kjartan. Sigrún, systir bræðranna, var fjarverandi.


Hljóðriti og samstarfið við söngvarann Vilhjálm Vilhjálmsson

Maggi tók þátt í að byggja hljóðver sem á þeim tíma var álitið eitt besta hljóðver í heimi. „Árið 1975 tók ég þátt í að byggja hljóðverið Hljóðrita en fram að þeim tíma hafði mestöll tónlist verið tekin upp í útvarpshúsinu. Þetta var alger bylting, við fengum Ameríkana til að hanna stúdíóið með okkur, menn sem þá höfðu verið að vinna með Jimi Hendrix og Pink Floyd. Engu var til sparað og þetta var talið eitt besta stúdíó í heimi þegar allt var komið í gang.  Þegar sólóplatan mín var að koma út þurfti ég aðstoð og fékk Jón Ólafsson, vin minn úr Keflavík, til þess. Það þurfti að búa til umslögin fyrir umrædda plötu, þau komu úr prentvél og það þurfti að brjóta þau um og líma, Jón vann þessa vinnu og greinilega komst hann á sporið því ekki leið á löngu þar til hann hafði keypt plötubúð í Hafnarfirði, opnaði svo aðra á Laugaveginum. Nafnið á búðunum breyttist fljótlega í Skífuna og ekki leið á löngu þar til við Jón og Villi heitinn Vill, ásamt þeim Magnúsi og Jóhanni, stofnuðum útgáfu sem fékk nafnið  Hljómplötuútgáfan hf. Þar urðu plöturnar með Villa Vill, Brunaliðinu, Björgvini Halldórs og fleirum til. Ég samdi auðvitað eitthvað af efni inn á þessar plötur en ég lít mest á mig sem „kíttara“ á þessum plötum, að ef eitthvað vantaði í einhver laganna bætti ég við og eins samdi ég ef vantaði lag. Frægasta sagan er nú líklega af samstarfi okkar Villa Vill en hann hafði samið textann við Lítill drengur og ég átti að semja lagið. Ekkert hafði gerst hjá mér og ég hummaði þetta fram af mér en svo sé ég hvar Villi rennir í hlað og ég vissi upp á mig sökina, ekkert lag var ennþá fætt. Ég bað því Sirrý um að taka á móti Villa og bjóða honum upp á kaffi og ég skaust upp og settist við píanóið, lagið fæddist nokkrum mínútum síðar. Þar sem þetta lag er að margra mati, mitt frægasta og vinsælasta lag, hugsanlega það besta, er þetta auðvitað ansi skondin saga. Þetta fyrirtæki okkar breyttist svo í Skífuna og var í raun orðið að fjölskyldufyrirtæki Jóns. Fleiri lög urðu til á næstu árum, t.d. Skólaball með Brimkló og ég spilaði mikið með þeim og HLH-flokknum en þegar Bubbi kom fram á sjónarsviðið þá sá ég sæng mína upp reidda. Hann söng um að vera löggiltur hálfviti, hlustandi á HLH og Brimkló og ég fann einhvern veginn hvernig tími var kominn á breytingar.

Hótel Saga og Hemmi Gunn

Það gerðist lítið í lagasmiðum Magga næstu árin enda hugsanlega eðlileg skýring á því. „Ég stofnaði hljómsveit á Hótel Sögu og rak hana næstu sjö árin og fljótlega bættust þættirnir hjá Hemma Gunn við. Á þessum tíma var ég eingöngu að spila á böllum, spilaði það sem þurfti til að búa til stuðið. Hugsanlega var þetta versta vinna sem hægt var að hugsa sér ef maður ætlaði sér að vera frjór í sköpun því það þurfti stöðugt að vera bregðast við aðstæðum, æfa upp þetta lag með þessum söngvara, hvort sem það var á sviðinu á Hótel Sögu eða í sjónvarpssal hjá Hemma. Þess vegna komu nú ekki mörg lög á þessum tíma og sennilega er Sólarsamba síðasta vinsæla lagið sem ég samdi, það öðlaðist skemmtilega nýtt líf fyrir nokkrum árum þegar tríóið GÓSS setti það í nýjan búning og gaf út. Ég var samt að semja, t.d. nokkur stef sem ennþá óma, Gettu betur-stefið t.d. Ég spilaði líka inn undirleiki fyrir Stundina okkar og svona mætti lengi telja,“ segir Maggi.

Réttindamál tónlistarfólks

Maggi á stóran þátt í hvernig réttindamál popptónlistarfólks tóku stakkaskiptum. „Jóhann G. Jóhannsson, sem var frá Njarðvík, var mikill hugsjónamaður. Hann hafði kynnst lögfræðingi sem benti Jóhanni á að við popparnir værum eiginlega hýrudregnir varðandi höfundagreiðslur. Hann vildi meina að útvarpið spilaði bara klassíska tónlist og okkar tónlist væri bara spiluð í Lögum unga fólksins. Jóhann áttaði sig á því að ef við ætluðum að sækja rétt okkar, að þá þyrftum við að stofna með okkur félag. Þá var félag tónskálda og textahöfunda, FTT stofnað, n.tt. árið 1981. Ég var fljótlega kosinn í stjórn FTT og fór að atast í þessum málum öllum. Fljótlega sóttum við um aðild að STEF [Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar] sem var stofnað árið 1948. Tónskáldafélag Íslands hafði verið stofnað, það var félag hinna klassísku tónskálda en svo vorum við popparnir bara látnir mæta afgangi. Stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson tók fljótlega við formennsku en frændi hans, lögfræðingurinn Eiríkur Tómasson sem hafði sérhæft sig í höfundarétti, sýndi okkar baráttu mikinn áhuga og gerðist framkvæmdastjóri FTT. Þar með vorum við teknir mun alvarlegar og varð meira ágengt í okkar réttindabaráttu. Ég var á kafi í þessari baráttu í u.þ.b. tuttugu til þrjátíu ár og kom  meðal annars að stofnun Samtóns en hlutverk þess var að leiða saman höfunda, útgefendur og flytjendur tónlistar. Um tíma var ég formaður og framkvæmdastjóri FTT og formaður eða varaformaður STEFs á sama tíma. Ég var forseti höfundasamtaka Norðurlanda og var á þeytingi um Norðurlöndin og víðar. Þetta var annasamur tími og ég er mjög stoltur af þessum hluta lífs míns.“

Sirrý og Maggi njóta sín í sveitinni. Mynd úr einkasafni

Hvernig sér Maggi framtíðina fyrir sér?

„Við Sirrý erum bara að njóta okkar hér í sveitinni, fá börn og barnabörn í heimsókn. Sirrý mín eldar alltaf extra góðan mat þá og ég fæ gott að borða. Yndislegt að geta loksins almennilega notið samvista við börn og barnabörn en þau þurftu, starfs míns vegna, svolítið að sitja á hakanum, voru hálfgert aukaatriði í mínu lífi því ég var alltaf á þeytingi. Betra er seint en aldrei segir einhvers staðar, það á svo sannarlega við í mínu tilviki,“ sagði Magnús Jón Kjartansson að lokum.

Í spilaranum hér að neðan má sjá þegar Suðurnesjamagasín leit inn hjá Magga og Sirrý í Grímsnesinu.