Nýtt viðmið eftir vel heppnaða Sálumessu
Um eitthundrað manns tóku þátt í flutningi Sálumessu eftir Verdi í Stapa síðasta miðvikudag. Húsfyllir var og nutu gestir sjaldgæfs menningarviðburðar af bestu gerð. Jóhann Smári Sævarsson hjá Óperufélaginu Norðurópi sem stóð að viðburðinum í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, segist afar ánægður með hvernig til tókst. Sextíu manna kór og þrjátíu manna sinfóníuhljómsveit ásamt fjórum þekktum einsöngvurum, töfruðu fram magnaðan flutning í níutíu mínútur.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og tónlistarskólastjóri til þrettán ára var ekki að spara hrósið og skrifaði þetta á Facebook síðu sinni:
„Í kvöld varð til (að mínu mati) nýtt viðmið í tímatali okkar Reyknesinga. Atburðir gerðust annað hvort fyrir eða eftir flutning Requiem Verdis í kvöld. Innilega til hamingju Jóhann Smári og þið öll hin. Þetta var magnað!“