Nýtt myndband og Karolinafund-söfnun fyrir sólóplötu
— Heidatrubador fer nýjar leiðir í tónlistarútgáfu
Tónlistarkonan Ragnheiður Eiríksdóttir eða Heiða trubador hefur gefið út nýtt myndband og hefur sett af stað söfnun á Karolinafund fyrir nýrri sólóplötu. Um er að ræða framleiðslu á sólóplötunni "Fast" sem er fyrsta platan sem Heiða tekur upp og hljóðvinnur sjálf en platan var tekin upp í Berlín í fyrravor.
„Á "Fast" eru 10 lög og textar eftir mig, og ég kaus að reyna að útsetja og leika á öll hljóðfærin sjálf og það tókst næstum því. Það var einn snerill sem ég náði ekki að gera nógu vel og fékk ég því Andra Geir Árnason, trommuleikara í Hellvar og GlerAkri, til að leika á þennan sneril fyrir mig. Aðrir sem koma að plötunni eru Curver Thoroddsen sem hljóðblandaði í samvinnu við mig og Curver hljómjafnaði/masteraði svo plötuna,“ segir Heiða í tilkynningu.
„Það eru tvær tengingar við Belgíu á plötunni. Annars vegar gerir belgíski Íslandsvinurinn Wim Van Hooste artworkið á fram- og afturhlið plötunnar í samstarfi við mig, og hins vegar er lagið "Veerle" samið til belgískrar vinkonu minnar sem ég saknaði þegar ég komst ekki í brúðkaupið hennar í Belgíu. Báðum þessum Belgum kynntist ég á Icelandairwaves-hátíðinni fyrir nokkrum árum.
Eina myndbandið sem gert hefur verið er við lagið "Veerle" og ég tók það upp á myndavélina mína (Fuji-finepix) og vann á 10 ára gamlan Makka, og þetta er jafnframt fyrsta myndbandið sem ég geri að öllu leiti sjálf,“ segir Heiða jafnframt.
Myndbandið má sjá hér.
Fjórða smáskífan af "Fast" er Veerle og kemur út í 20 númeruðum eintökum af 7" vínyl-plötu sem er framleidd hjá vinyl.is. A-hliðin er Veerle album-version og B-hliðin er remix frá Curver.
„Karónlinafund-söfnunin er nýstárlegur valkostur fyrir fólk sem langar í eitthvað mjög sérstakt. Það er hægt að fá lag samið um sig fyrir tæpan hundrað þúsund-kall. Þá þarf að senda mér nafn og nokkur stikkorð og ég sem lag og texta og tek lagið upp fyrir kaupandann. Það má einnig kaupa sér eina, þrjár, fimm eða tíu vínylplötur, bóka Heidatrubador á tónleika eða í partý, og svo eru sérstök verðlaun fyrir ríka. Þeir geta keypt sér eina áritaða Heidatrubador-plötu fyrir 900 evrur, eða 117.000 krónur. Kannski er hægt að fjárfesta í menningu ef maður er nýbúinn að fá launahækkun og veit ekkert hvað maður á að gera við peninginn?,“ segir Heiða í tilkynningunni og bætir við: „Karolina-fund er eitthvað ég geri í fyrsta skipti, og ég er mjög þakklát fyrir að hægt er að nýta sér þessa leið til að fá hjálp til að fjármagna verkefni á borð við þetta. Fyrirliggjandi er framleiðsla á vínil-plötum, og vonandi verða nokkrir geisladiskar og kassettur gerðar í leiðinni. Ég vona að sem flestir séu tilbúnir til að aðstoða mig við þetta skemmtilega ævintýri“.
Heidatrubador á samfélagsmiðlum:
https://www.facebook.com/heidatrubador/
https://heidatrubador.bandcamp.com/
https://twitter.com/heidatrubador