Nýr sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar
Bæjarráð Grindavíkurbæjar hefur samþykkt að ráða Þorstein Gunnarsson í starf sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs úr hópi 31 umsækjanda. Ráðningarþjónustan Intellecta var bæjarráði til ráðgjafar og hafði yfirumsjón með ráðningarferlinu.
Þorsteinn er að ljúka meistaranámi í Verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, en hefur auk þess stundað nám í fjölmiðlafræði og upplýsingatækni. Hann hefur undanfarin 4 ár starfað sem upplýsinga- og þróunarfulltrúi Grindavíkurbæjar. Þorsteinn hefur í störfum sínum fyrir Grindavíkurbæ og íþróttahreyfinguna öðlast mikla þekkingu og reynslu á íþrótta- og frístundamálum, forvörnum og menningu.
Þáhann hefur hann leitt stefnumótunarverkefni og hefur reynslu af gerð rekstrar- og fjárhagsáætlana fyrir sveitarfélag. Reynsla hans og þekking á stjórnsýslu og málefnum sveitarfélaga er talsverð. Hann hefur auk þess stýrt umfangsmiklum verkefnum, m.a. menningarviðburðum í Grindavík og Vestmannaeyjum.
Þorsteinn hefur störf í desember og tekur við af Kristni Jakobi Reimarssyni sem heldur til nýrra starfa í Fjallabyggð.