Nýliðastarf björgunarsveitanna að hefjast
Þessa dagana eru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar að taka inn nýja meðlimi og eru margar sveitir með kynningarfundi fyrir væntanlega félaga í þessari viku.
Undanfarin ár hefur fjöldi þeirra sem hefja þjálfun hjá björgunarsveitum aukist mikið, sérstaklega hjá sveitum á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjum. Fólk á ýmsum aldri með afar víðtæka menntun og reynslu sækist nú eftir að gerast sjálfboðaliðar og taka þátt í starfinu.
Nýliðar björgunarsveita fara í gegnum nokkuð strangt nám og þjálfun sem tekur u.þ.b. tvö ár og fer fram að mestu leyti á kvöldin og um helgar áður en þeir eru gjaldgengir í útköll. Námið felst m.a. í fyrstu hjálp, rötun, ferðamennsku, leitartækni, fjallamennsku og sjóbjörgun svo eitthvað sé nefnt.
Þeim sem áhuga hafa á að taka þátt er bent á að hafa samband við björgunarsveitina í sínu heimahéraði. Á höfuðborgarsvæðinu eru sjö sveitir, þar af fjórar í Reykjavík.
Vetrarstarfið er einnig að hefjast hjá slysavarna-/kvennadeildum um land allt.
Upplýsingar um björgunarsveitir má finna á www.landsbjorg.is.