Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nýja platan heilsteyptari
Sjá má myndband af viðtalinu við þá félaga hér að neðan.
Föstudagur 19. október 2012 kl. 17:31

Nýja platan heilsteyptari

-Segja þeir Valdimar og Ásgeir úr hljómsveitinni Valdimar

„Platan kemur í verslanir á miðvikudag í næstu viku og þá byrjar stuðið. Stemmningin í sveitinni er mjög góð og það ríkir mikil eftirvænting,“  segir Valdimar Guðmundsson, söngvari í hljómsveitinni Valdimar. Önnur plata sveitarinnar, Um Stund, er á leiðinni til landsins og kemur út í næstu viku. Mikil eftirvænting er fyrir plötunni en sveitin sló í gegn með fyrstu plötu sinni, Undraland, fyrir tveimur árum. Víkurfréttir settust niður með þeim Valdimari Guðmundssyni og Ásgeiri Aðalsteinssyni, gítarleikara, og ræddi við þá um nýja plötu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það hafa margir spurt mig út í okkar næstu plötu og það er væntanlega vegna ánægju með fyrri plötu,“ segir Valdimar. „Við fylgdum okkar tilfinningu og gerðum það sem við vildum gera á þessari plötu. Við settum á okkur pressu í að búa til betri plötu. Núna þegar platan er að koma út þá fer maður kannski frekar að spá í því hvað öðrum finnst. Við erum mjög sáttir með plötuna og það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Ásgeir.

Fyrsta smáskífan af plötunni, lagið Sýn, hefur verið spilað talsvert á öldum ljósvakans á undanförnum vikum og situr um þessar mundir í efsta sæti topplista Rásar 2. Þeir félagar eru mjög sáttir með viðtökurnar og vonast til að fleiri lög rati í spilun í kjölfarið á útgáfu plötunnar.

„Það er auðvitað mjög jákvætt að lagið skuli njóta þessara vinsælda og gefur góð fyrirheit. Við ákváðum að setja lélegasta lagið af plötunni fyrst í spilun þannig að það er bara betra framundan,“ segir Valdimar og hlær. Platan hefur fengið heitið Um stund og er það eftir lagi á plötunni.

„Það er lag á plötunni sem heitir Um stund og við ákváðum að hafa það titillag plötunnar. Nafnið á plötunni var svolítið lengi í fæðingu. Við ætluðum upphaflega ekki að skíra plötuna eftir lagi á plötunni en þetta var niðurstaðan og við erum mjög sáttir,“ segir Ásgeir

Búnir að finna sinn stíl

Fyrsta plata Valdimar kom sem ferskur blær inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum og hefur Valdimar söngvari í kjölfarið tekið að sér fjölda verkefna utan sveitarinnar. Ásgeir fór sjálfur af landi brott eftir að upptökum á fyrstu plötunni lauk og hélt til náms í Hollandi. Hann hefur því misst af stórum hluta tónleikahalds síðustu tvö árin en er nú kominn aftur á sinn stað á bak við gítarinn. Spurðir um plötuna Um stund þá telja þeir félagar að nýja platan sé heilsteyptari en frumburðurinn.

„Það má segja að hún sé kannski meiri heild en fyrsta platan okkar,“ segir Valdimar og Ásgeir er sammála því. „Ég held að við séum búnir að finna okkar stíl eða hljóðheim á þessari plötu. Lögin eru líkari hvort öðru á þessari plötu en þeirri fyrstu en ég vona að þau séu á sama tíma ekki einhæf,“ segir Ásgeir. Mörg lög af nýju plötunni voru samin í Hollandi í heimsókn Valdimars til Ásgeirs.

„Aðdragandinn að plötunni er talsverður. Mörg lög voru samin fyrir tveimur árum. Valdi kom til mín til Hollands og meirihlutinn af plötunni var saminn úti í Hollandi,“ segir Ásgeir. „Það voru margar hugmyndir sem komu á æfingu og auðvitað breytast lögin mikið þegar við förum að æfa þau og þá er hugmyndum kastað fram og til baka. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ferli,“ bætir Valdimar við.

Á ferð og flugi næstu mánuði

Í kjölfar plötunnar mun Valdimar fara í mikið tónleikaferðalag vítt og breitt um landið. Iceland Airwaves er einnig handan við hornið og því verður mikið að gera hjá sveitinni á næstu vikum og mánuðum. Sérstakir útgáfutónleikar munu svo fara fram 16. nóvember þegar sveitin leikur í Gamla Bíói í Reykjavík og nýtur Valdimar þar aðstoðar stórsveitar.

„Þetta verður mikil uppskeruhátíð fyrir okkur og verður mjög gaman. Stærstu tónleikarnir verða útgáfutónleikarnir en svo verðum við á flakki um allt land að spila og það má segja að þetta sé smá hringferð. Næstkomandi þriðjudag verðum við með hlustunarpartý á Faktorý og sjáum vonandi sem flesta þar,“ segja þeir Ásgeir og Valdimar að lokum.