NÝÁRSTÓNLEIKAR FRÁ VÍN Í NJARÐVÍKURKIRKJU
Tveir Keflvíkingar og einn Króati, tuttugu og tveggja ára, þrjátíu og sextíu ára söngvarar munu þenja raddböndin í Njarðvíkurkirkju nk. laugardag. Þetta eru þeir Davíð Ólafsson, bassi, Steinn Erlingsson, bariton og Tomislav Muzek, tenór. Og tónleikarnir eru auglýstir sem nýárstónleikar frá Vín?Já, okkur fannst það tilvalið að vitna í Vín af því ég og Tomislav erum báðir að nema þar. Svo getum við sagt í bland að þetta séu afmælistónleikar því við fögnum þrítugs- og sextugsafmæli um þessar mundir, ég og Steinn“, sagði Davíð Ólafsson í viðtali við Víkurfréttir en hann hefur síðastliðið eitt og hálft ár numið söng í Vín í Austurríki.Hver með sína röddMeð Davíð í fríi hér yfir hátíðirnar er 22 ára Króati, Tomislav Muzek en hann hefur vakið mikla athygli fyrir frábæra söngrödd og hæfileika. Suðurnesjamenn þekkja til Steins Erlingssonar sem er þekktur fyrir sönghæfileika sína og saman ætla þeir þrír, hver með „sína“ rödd, ýmist sér eða saman, syngja í Njarðvíkurkirkju á laugardag kl. 16. Steinn sagðist spenntur að syngja með þessum ungu upprennandi söngvurum. „Ég stakk upp á þessu við Davíð í haust og við höfum síðan æft að undanförnu fjölbreytt klukkutíma prógramm“, sagði Steinn. Á dagskránni eru þekktar óperuaríur, Vínartónlist og dúettar, íslensk og ítölsk sönglög og svo amerísk söngleikjatónlist. Þrír Keflvíkingar í VínDavíð hefur eins og áður segir verið undanfarið eitt og hálft ár í tónlistarháskólanum í Vín og sungið þar með Tomislav t.d. brúðkaup Fígarós og þeir munu verða saman í Töfraflautunni í vor. Í Vín eru fyrir tveir aðrir Suðurnesjamenn í söngnámi, þau Bjarni Thor Kristinsson og Sigríður Aðalsteinsdóttir. Davíð hafði áður lokið söngnámi frá Söngskólanum í Reykjavík og samhliða því lokið námi í íslensku og kennslufræði í Háskólanum. Áður hafði hann klárað stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og einnig stundað nám í Tónlistarskólanum í Keflavík. Davíð er búinn að syngja í fjórum aðalhlutverkum á síðasta ári og ferðast með skóla sínum til margra Evrópulanda. Ekki út fyrir skólannEn bjóðast söngnemendum verkefni utan skólans?„Jú, en ég hef tekið þá stefnu að hafna þeim öllum á meðan ég er í námi og einbeita mér algerlega að náminu. Það eru mörg stór verkefni í boði frá skólanum, flest stærri en þau sem byrjendum í atvinnumennskunni bjóðast og þannig fær maður nasaþefinn af þessum stærri“, sagði Davíð og bætir því við að mörg verkefni bíði sín á ný byrjuðu ári.En hvað með samkeppnina. Nú er þú bassi, er það ekki auðveldara?„Það er aðeins léttari samkeppni hjá bössum en tenórum ef hægt er að segja svo. Annars er þetta svolítið sérstakt að tveir nemar frá sama bæ á Íslandi eru bassar í skólanum í Vín því Austurríkismenn eiga fáa eða enga bassa. Þeir eiga hins vegar baritóna í hundruðavís“, sagði Davíð sem vildi hvetja Suðurnesjamenn til að fjölmenna á tónleikana í Njarðvíkurkirkju á laugardaginn.