Ný sýning opnar í Suðsuðvestur
Baldur Geir Bragason opnar sýninguna „Borðar“ í Suðsuðvestur laugardaginn 29. október kl.16:00.
Borðar hlykkjast um sem myndfletir á fjölum. Svokölluð viktorísk dýpt eða olíulýsing er í verkunum þar sem borðarnir ná inní bakgrunninn með því að svindla á fjarvíddinni og nota stærðfræðileg form til þess að það líti út fyrir að borðinn flökti inní myndina. Þetta eru þó með eindæmum flöt verk
og brellan augljós.
Í dag hefur þetta þá merkingu að rótgróið innihaldið standist tímans tönn. Jafnframt hefur þetta einhverskonar konunglegt yfirbragð. Borðinn er notaður til þess að flagga letri og er ýmist vörumerkið sjálft eða afurð þess. Borðarnir eru myndirnar sjálfar límdar uppá kassafjalir. Striginn teiknar sjálfan sig sem blekkingu um dýpt og eigið form.
Suðsuðvestur er á Hafnargötu 22 í Reykjanesbæ.
Þar er opið um helgar frá kl.2 – 5 og eftir samkomulagi.
Meðfylgjandi er mynd af verkinu "fulfilling itself" 2011 sem var til sýnis á tvíæringnum í Prag í sumar og er núna á sýningunni Four rooms í Varsjá.