Ný sýning í Listasafni Reykjanesbæjar
– Ferð/Journey/ Finns Arnars
Föstudaginn 31. október kl. 18.00 verður opnuð sýning á nýju myndbandsverki eftir Finn Arnar Arnarson í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum. Verkið er í tveimur hlutum og ber titilinn Ferð en þetta er í fyrsta sinn sem haldin er sérstök sýning á vídeólist í húsakynnum safnsins. Finnur Arnar á að baki langan og fjölbreyttan feril á vettvangi íslenskra sjónlista. Myndbandslistaverk eftir hann hafa verið sett upp á helstu sýningarstöðum landsins, ein sér, eða í samfloti við verk unnin í aðra miðla.
Finnur Arnar er einnig afkastamikill hönnuður sviðsmynda fyrir leikhús. Loks hefur listamaðurinn í seinni tíð haslað sér völl sem sýningarstjóri, en sýningarstjórn hans hefur framar öðru hverfst um „Skúrinn“ svokallaða. „Skúrinn“ er gamall og lúinn vinnuskúr sem fjöldi málsmetandi listamanna úr mörgum listgreinum hefur sýnt í og umbreytt með ýmsum hætti. Meðal annars hafa listamennirnir flutt hann með sér um landið. Upprunalega mun „Skúrinn“ þó hafa staðið á Suðurnesjum.
Í sýningarskrá ræðir Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur, um verk Finns Arnar og gerir að umtalsefni siðferðilegan grunn þeirra, sjálfsævisögulega skírskotun og þá meðvitund um „tímans þunga nið“ sem í þeim birtist.
Sýningin á myndbandsverki Finns Arnars verður opin alla virka daga frá kl. 12.00-17.00 og frá 13.00 – 17.00 um helgar, ókeypis aðgangur. Sýningunni lýkur 21. desember.