Ný sýning í Listasafni Reykjanesbæjar
Föstudaginn 14. mars kl. 18.00 verður opnuð sýning í Listasafni Reykjanesbæjar sem ber heitið Ljósmyndin ímyndin portrettið. Á sýningunni mætast verk Sigríðar Melrósar Ólafsdóttur og Karls Jóhanns Jónssonar. Það má segja að stefnumót listamannanna og verka þeirra sé byggt á því að nálgun þeirra á viðfangsefninu sé ólík þó bæði geri portrett. Bæði eiga það sameiginlegt að nota ljósmyndamiðilinn sem verkfæri í vinnuferlinu þó útkoman sé málverk, grafík eða teikningar.
Sigríður sýnir mörg verk, grafíkverk og málverk af sömu manneskjunni sem er nektardansarinn Lísa. Áður hefur Sigríður gert fjölskyldumyndir, málað kaupmanninn á horninu og alla hans fjölskyldu og málað hópmynd af bifvélavirkjunum sem á undaförnum árum hafa séð um viðgerðir á bílnum hennar. Á síðasta ári urðu þó kaflaskil en þá sýndi hún í Gerðarsafni portrett af íbúunum á LitlaHrauni. Hún er að færast fjær þeim heimi sem stendur henni næst og er farin að skoða persónur og gera portrett af manneskjum sem lifa í undirheimum. Hún fjölfaldar á sýningunni myndir af sömu manneskjunni sem eykur enn á fjarlægð við sjálfa fyrirmyndina. – Á sýningunni fá reyndar nokkrar myndir af eðalkarlmönnum að fylgja með sem koma henni Lísu ekkert við.
Karl Jóhann sýnir málverk þar sem hann hefur tekið fyrir tvær eða fleiri manneskjur á sama striga. Karl málar gjarnan það fólk sem er í kringum hann, eiginkonu, börn,vini og sjálfan sig en á myndunum er þetta allt annað fólk, í öðrum hlutverkum. Hvert verk sýnir einhvern atburð eða stemmningu sem Karl spinnur upp og sviðsetur, sem virkar þannig að áhorfandinn gæti gleymt sér í að einblína á það sem ekki er sýnt. Í verkum Karls má oft greina beinar og óbeinar vísanir í listasöguna.
Spurningin er svo „hvað gerist“ þegar þessi verk eru saman komin? Gæti þetta virkað eins og ættarmót þar sem kannski má sjá einhvern undirliggjandi fjölskyldusvip eða getur þetta jafnvel farið á hinn veginn þ.e. að allir verði sem ókunnugir samankomnir á almenningssvæði.....
Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannesdóttir.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum. Þar er opið alla daga frá kl. 11.00-17.00 og aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 4. maí.