Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ný súpergrúppa fæðist í Keflavík - Vinnuheitið er 23
Mánudagur 2. maí 2011 kl. 12:12

Ný súpergrúppa fæðist í Keflavík - Vinnuheitið er 23

Valdimar Guðmundsson söngvari hljómsveitarinnar Valdimar og Björgvin Ívar Baldursson liðsmaður Lifun og Klassart eru þessa stundina að vinna að breiðskífu sem ætti að koma út á næstunni. Segja má að þarna verði til ný súpergrúppa á Suðurnesjunum. Tvíeykið hefur enn hefur ekki hlotið opinbert nafn en vinnuheitið er 23. Það segja þeir félagar hafa komið til þar sem þeir hófu samstarf þegar þeir voru báðir 23 ára og vegna aðdáunnar sinnar á Michael Jordan. Súperteymið er þessa stundina að vinna að breiðskífu sem fyrirhugað er að komi út nú í júnímánuði. Valdimar mun sjá um sönginn og Björgvin um gítarleik og mun Björgvin jafnframt stjórna upptökum. „Þetta er bara mjög strípað kósý kassagítar dæmi, Bon Iver, Bright Eyes, eitthvað þannig,“ sagði Björgvin um tegund tónlistarinnar.



Björgvin ætlar alfarið að láta Valdimar um sönginn enda segir hann Valda vera tveggja manna maka þegar kemur að söng, sjálfur muni hann ekki gera fólki þann grikk að gaula með. Björgvin sagði samstarfið hafa byrjað á sunnudegi yfir bjór þar sem þeir hefðu rætt um að semja saman tónlist. Á mánudeginum fannst þeim hugmyndin enn góð og þeir félagar hittust og byrjuðu að semja. „Það hafa fáir heyrt þetta ennþá en ég tel þetta lofa góðu,“ sagði Björgvin og blaðamaður getur tekið undir það en undirritaður fékk að heyra lagbút frá þeim félögum um daginn sem rann ljúflega niður með morgunkaffinu. Nánar verður rætt við þá félaga á næstunni í Víkurfréttum.

VF Myndir: Að ofan er Valdimar á básúnunni og að neðan er Björgvin við píanóið hægra megin ásamt Smára Guðmundssyni úr Klassart og Lifun sem þó kemur hvergi nærri súperteyminu.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024