Nútíma jólaskreytingar fyrir hugaða
-Nýstárlegt námskeið í Hakkit
Stafræna smiðjan í Eldey sem gengur undir nafninu Hakkit býður upp á nýstárlegt námskeið fyrir jólin í ár þar sem fólki gefst kostur á að smíða einfaldan rafbúnað sem stýrir jólaljósum hvort sem er innan eða utanhúss.
„Við vildum byrja fyrsta námskeiðið á skemmtilegum nótum og þessi hugmynd kviknaði út frá þeim möguleikum sem arduino örtölvan getur boðið upp á en þeir eru endalausir. Nú styttist í jól og eflaust margir sem vilja prófa þá möguleika sem nútímatækni býður til hversdagslegrar notkunar eins og í jólaskreytingum,“ segir Hafliði Ásgeirsson nýr verkefnastjóri Hakkit sem nú hefur opnað í stórri og glæsilegri smiðju í Eldey frumkvöðlasetri.
Námskeiðið er 18 klukkutímar og hentar öllum sem hafa áhuga á því að kynna sér stafræna tækni en þátttakendur munu smíða fjöltengi og forrita þannig að það stýri jólaljósum þ.e. kveikir og slekkur á þeim eftir ákveðnu mynstri. „Það eru ýmsir möguleikar sem felast í slíkri forritun t.d. væri hægt að slökkva á ljósunum á ákveðnum tíma eða hafa t.d. bara kveikt á þeim milli 8 og 9 á kvöldin, þá væri jafnvel hægt að láta þau telja niður til jóla,“ segir Hafliði en jafnframt væri hægt að stjórna ljósunum með sms úr síma eða nýta hreyfiskynjara en slíkt væri þá grunnur að framhaldsnámskeiði ef áhugi væri fyrir hendi.
„Við höfum ekki séð slíka jólastýringu á Íslandi og því er þetta skemmtileg nýbreytni og við hæfi að slíkt námskeið sé haldið í Reykjanesbæ sem hefur staðið fyrir sérstakri samkeppni um fallega skreytt jólahús á aðventu. Hver veit nema einhver komi skemmtilega á óvart í ár“, segir hann og hlær.
Verð fyrir námskeiðið er kr. 30.00 en börn eru velkomin með þátttakendum. Innifalinn er allur búnaður fyrir utan jólaseríur. Skráning fer fram á [email protected] fram til 20. nóvember n.k.
Eftir áramót verður boðið upp á fleiri áhugaverð námskeið í Hakkit m.a. hvernig á að nota laserskera, cnc fræsi, undirbúa gögn til þrívíddunarprentunar, þríviddarskönnun og vínílskurð. „Þá vorum við að fá nýja græju í hús sem er bolaprentunarvel sem býður upp á skemmtilega möguleika. Við erum því mjög spennt hér í Hakkit að sjá hvert verkefnið mun þróast í framtíðinni en það vantar ekki hugmyndirnar,“sagði Hafliði að lokum.