Nunnudraumurinn rættist á Spáni
Anna Lóa Ólafsdóttir fór Jakobsveginn í pílagrímsferð í sumarfríinu.
Á hverju ári þramma og hjóla tugþúsundir ferðalanga þvert yfir Spán og Frakkland og enda í dómkirkjunni í Santiago de Compostela. Sú leið er nefnd Jakobsvegur. Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, ráðgjafi hjá MSS og nú pílagrími er nýkomin úr ferð þar sem hún hjólaði þessa 800 km leið á 14 dögum með 14 manna skipulögðum hóp og farastjóra. Með Önnu Lóu voru tvær vinkonur, sem hún segir hafa verið ómetanlegt. Hún segir ferðalagið hafa verið blöndu af því að reyna mikið á sig og njóta í leiðinni.
„Maður þarf ekki að labba nema 100 km af leiðinni og hjóla 200 km til að teljast vera pílagrími. Íslendingurinn tók þetta auðvitað fjórfalt en ef ég myndi gera þetta aftur þá færi ég hægar yfir,“ segir Anna Lóa. Pílagrími er sá sem tekur sér á hendur ferðalag á einhvern helgan stað, sjálfum sér til sálubótar. „Ferðalagið þarf í raun að taka svolítið á og launin eru því ekki síður að hafa sigrast á sjálfum sér og þeim hindrunum sem eru oft sjálfsprottnar. Ég hafði tvisvar áður farið í viku hjólaferð, til Skotlands og Ítalíu og elska þannig frí. Þegar vinkona mín sendi mér auglýsingu um hjólaferð um Jakobsveginn var ég ekki lengi að segja já. Þetta hljómaði eins og draumur í mínum eyrum, enda sá ég þessa merku pílagrímaleið sem bæði andlegt og líkamlegt ferðalag.“
77 kílómetrar í 37 gráðu hita
Anna Lóa lýsir ferðinni sem stórbrotinni lífsreynslu sem reynir á andlega og líkamlega á sama tíma og umhverfið sé með því fallegra sem gerist. „Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef gert áður og hreyfði við mér á svo marga vegu. Ferðalagið er allt í senn lista- og menningarsaga Evrópu, stórbrotin náttúra og líkamlegt og andlegt ferðalag í góðum félagsskap.“ Spurð um hvað hafi komið mest á óvart segir Anna Lóa vera hversu erfitt ferðalagið var á köflum. „Ég vissi alveg að þetta myndi taka á og ég er ekkert í mínu besta formi í dag. Sumir dagarnir voru virkilega erfiðir og ég hét sjálfri mér að segja aldrei: þetta var nú ekki mikið mál. Þetta var nefnilega mál en algjörlega þess virði.“ Hún vissi að það yrði erfitt að fara yfir fjallgarðana en svo spilaði hitinn meira inn í en hún átti von á. „Við lentum í hitabylgju fyrstu dagana og erfiðasti dagurinn var líklega þegar við hjóluðum 77 kílómetra og hitinn fór upp í 37 gráður. Það sem reyndist aftur á móti auðveldara en ég bjóst við var að hjóla á sjálfum stígnum. Þar var margt fólk að labba og oft erfitt og gróft yfirferðar. Ég var fljót að komast í torfærugírinn þegar þess þurfti og hafði gaman af. Svo var búið að vara mig við að fara niður brekkur, en mér fannst þær oftar en ekki það mest spennandi þó svo að ég fengi stundum hroll þegar ég leit til baka og sá brattann.“
50 ár aftur í tímann
Spurð um hvað hafi gefið mest í ferðalaginu og skilið mest eftir sig Anna Lóa erfitt að taka eitthvað eitt úr. „Þessi blanda af því að vera að reyna mikið á sig og njóta í leiðinni. Leiðin sem slík er svo stórkostleg og var maður að reyna að vera alltaf meðvitaður um að taka inn. Öll litlu þorpin sem maður hjólaði í gegnum, fólkið sem varð á vegi manns, stórbrotið landslagið, frábær félagsskapur og persónulegur sigur. Svo vakti það athygli mína að þegar við fórum í gegnum sum þorpin var engu líkara en við værum komin 50 ár aftur í tímann. Það voru beljur og hænur á götunum, gamlar konur og karlar að sinna bústörfum en lítið um börn. Ég velti oft fyrir mér hvernig væri fyrir þetta fólk að fá þúsundir manna í gegnum þorpið sitt á hverju ári á sama tíma og hversdagsleikinn hjá þeim var svona allt annar. Andstæðurnar voru sterkar en ekki mitt að meta hvort það sé endilega eitthvað neikvætt við þetta.“
Enn að vinna úr ferðinni
Eins og gefur að skilja hefur ferð sem þessi mikil áhrif á þá sem hana fara og Anna Lóa segist enn vera að vinna úr henni. „Áhrifin eiga klárlega eftir að koma betur í ljós. En það gerðist margt þarna fyrstu dagana þegar maður var einn einhvers staðar á hjóli uppi í Pýreneafjöllunum og fór yfir líf sitt og stöðuna. Ég hef alltaf verið frekar dugleg að sinna sjálfri mér, líkamlega og andlega, og fann mjög fljótlega í ferðinni að þar vantaði helling upp á hjá mér. Það má því segja að ég hafi komist að því að líf mitt hefur breyst mikið undanfarin ár og mitt að ákveða hvernig mér hugnast þær breytingar. Maður getur aldrei gert allt, en maður þarf svo sannarlega að velja hvað það er sem skiptir mann máli. Ég er einmitt mikið í þeim pælingum núna því við þurfum öll að velja okkur viðhorf og gildi en ekkert síður að hafa kjark til að fylgja þeim eftir.“
Heppin að sjá reykelsiskeri sveiflað
Móðir Önnu Lóu, sem lést árið 2006, var kaþólsk, eins og stór hluti af hennar fjölskyldu. Anna Lóa er alin upp við að sækja kaþólsku Kristkirkjuna í Landakoti. Því var því tilfinningaþrungin stund pílagrímamessunni í dómkirkjunni við leiðarendann. „Það var stórkostleg upplifun fyrir mig. Mörg hundruð pílagrímar, þreyttir en sælir, saman komnir á sama staðnum.“ Í slíkri messu er öðru hverju sveiflað stærðarinnar reykelsiskeri en alls ekki alltaf og Anna Lóa segir að ekki hafi átt að gera það næst fyrr en í lok júlí, enda mjög kostnaðarsamt. „Ef það kemur aftur á móti einhver og borgar fyrir herlegheitin sveifla þeir kerinu og við vorum svo heppin að það var einmitt gert þennan sunnudag. Það var stórfengleg sjón og lokaði vel þessum kafla. Svo er stytta af Jakobi sjálfum fyrir aftan altarið og hefðin er að fara þangað og faðma hann, sem við að sjálfsögðu gerðum.“ Að endingu fór hópurinn á pílagrímaskrifstofuna og fékk vitnisburð um að hafa lokið ferðinni. „En bara svo það sé nú sagt hér þá þarf maður ekki að labba nema 100 km af leiðinni og hjóla 200 km til að teljast vera pílagrími. Íslendingurinn tók þetta auðvita fjórfalt en ef ég mundi gera þetta aftur þá færi ég hægar yfir,“ segir Anna Lóa.
Ætlaði að verða nunna
Eins og gefur að skilja var móðir Önnu Lóu ofarlega í huga hennar í ferðinni. „Ég hef oft sagt að ég sé sú sem ég er vegna þess að ég er dóttir móður minnar. Mamma var alveg sérstök kona og mér mikilvæg fyrirmynd og mér finnst hún enn vera virk í lífi mínu. Ég veit að pílagrímaferð eins og þessi hefði hugnast henni vel og því tók ég einmitt með mér sálmabók sem hún fékk í fermingargjöf árið 1944 og bænarband sem hún gaf mér þegar ég var flugfreyja og átti að veita mér vernd.“ Í ferðinni fór Anna Lóa inn í kirkjur þegar hún hafði tækifæri til og kveikti á kertum af virðingu við foreldra sína og fyrir þá sem eiga um sárt að binda. Þá svaf hún í klaustri og hún og vinkonur hennar gerðu óspart grín að því, enda segir hún að móðir hennar hafi oft hlegið að því þegar Anna Lóa sem barn reyndi að sannfæra hana um að hún ætlaði mér að verða nunna. „Að sjálfsögðu var sú ákvörðun tekin eftir að ég horfði á The sound of music. Ég var ekki alin upp við það að trúin krefjist alvarleika af manni. Mamma talaði alltaf um að Guð hefði mikinn húmor og það væri gjöf frá honum að hafa húmor og hann skyldi maður nota. Þegar mér fannst ég vera aðframkomin í ferðinni sá ég mömmu fyrir mér skellihlæjandi og segja: Anna Lóa mín, við hverju bjóstu, þú ert að hjóla 800 km,“ segir hún hlæjandi og bætir við að mömmu hennar hafi oft fundist stelpan hennar hvatvís. „Á sama tíma dáðist hún að því sem mér datt í hug að gera. Ég veit í hjarta mínu að mamma er stolt af þessari ferð minni og það gefur mér heilmikið,“ segir Anna Lóa að lokum.
VF/Olga Björt