„Núna veit ég að ég get þetta“
-Dagbjört Ben Guðfinnsdóttir lenti í þriðja sæti í Biggest Loser
„Ég er ótrúlega þakklát að hafa fengið að taka þátt,“ segir Dagbjört Ben Guðfinnsdóttir um keppnina Biggest Loser, en Dagbjört endaði í þriðja sæti í keppninni. Hún segist hafa ákveðið að kýla á það og skrá sig í keppnina eftir að hafa séð umsóknina auglýsta nokkrum sinnum á netinu.
„Ég er mun léttari á mér í dag. Ég hafði oft hugsað það að ég væri til í að komast á einhvern stað þar sem ég fengi hjálp og væri bara að hugsa um sjálfa mig,“ segir Dagbjört en hún hefur nánast allt sitt líf verið í yfirþyngd og átt erfitt með mataræðið. Í keppninni, sem stóð í heild sinni yfir í sjö mánuði, missti hún rúm 33 kíló.
Allir hjálpuðust að
„Ég borðaði ekki rétt og ég þarf að passa það núna. Þegar við mættum á Bifröst var okkur sagt hvað við ættum að borða. Við vorum á Paleo-fæði sem er hreint mataræði. Við þurftum að vera á algjörlega hreinu fæði fyrsta mánuðinn en þetta var mjög góður matur. Við pöntuðum inn og elduðum saman. Þetta var einhvern veginn ekkert mál. Við vorum í vernduðu umhverfi og það var ekkert áreiti. Það voru bara allir að gera það sama,“ segir Dagbjört.
Dagbjört ásamt liðinu sínu.
Hvíldin mikilvæg
Hún segir það þó hafa verið áskorun að vera á Bifröst, en hún var þar í níu vikur. „Þegar sex ólíkir einstaklingar eru settir saman í íbúð og þurfa allt í einu að fara að gera allt saman, þá kemur manni ekkert alltaf vel saman. En maður reyndi að vera jákvæður,“ segir hún.
Rauða liðið, sem Dagbjört var hluti af, æfði þrisvar á dag en tók einn hvíldardag í viku. Sá dagur innihélt þó alltaf einhverja hreyfingu, til dæmis göngutúr. „Hvíldin var líka mjög mikilvæg. Okkur leið mjög vel þarna og það var aldrei nein ofþjálfun,“ segir hún. Evert, þjálfari rauða liðsins, er eigandi CrossFit Reykjavík og því snerust æfingarnar að miklu leyti um CrossFit.
Dagbjört ásamt Evert, þjálfara sínum.
Eftir keppnina segist hún mun léttari á sér. „Það er rosalega mikil breyting á líkamanum á mér. Þó svo að kílóin hafi ekki farið hratt niður hjá mér, þá er ég öll að breytast. Ég var líka að lyfta og hef fengið vöðva. Mér finnst til dæmis auðveldara að fara inn í búð og versla mér föt. Ég er búin að fara niður um svona átta fatastærðir.“
Meirihluti keppenda fer aftur í sama farið
Dagbjört hafði alltaf verið í einhverjum æfingum áður en hún tók þátt í Biggest Loser, en síðastliðið ár var hún í „Þitt Form“ hjá Freyju Sigurðardóttur í Sporthúsinu. „Ég elska hana. Hún er algjörlega búin að taka mig að sér,“ segir Dagbjört, en hún mun áfram æfa hjá Freyju.
Aðspurð segist Dagbjört mæla með keppninni en að fólk verði þó að vera tilbúið að vinna vinnuna. „Þetta er leikur, þetta er gaman, en það er líka fullt sem er erfitt. Þetta hjálpar manni algjörlega en maður verður að vera tilbúinn bæði í hausnum og hjartanu. Mér var sagt að um 90% af fólkinu sem keppir í Biggest Loser í heiminum verði aftur feitt. Þetta er ógeðslega erfitt eftir á líka, ég er alveg að ströggla núna,“ segir hún.
Markmið Dagbjartar eru þó að halda áfram að æfa. „Það þýðir ekkert að fara í þetta í sjö mánuði og fylgja þessu svo ekkert eftir. Núna hugsa ég öðruvísi. Áður sá ég ekki að ég gæti þetta. En núna veit ég að ég get þetta.“