Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nú fær hún heiminn til sín
Unnur Katrín, kölluð Kata, býr í frístundabyggðinni Nátthaga í Suðurnesjabæ.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 24. desember 2020 kl. 07:06

Nú fær hún heiminn til sín

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur sums staðar farið mjög illa síðastliðna mánuði. Fyrirtæki hafa þurft að loka tímabundið eða alveg. Þó eru sumir aðilar í ferðaþjónustu hér á landi, sem segjast sjá tækifæri í þeim erfiðleikum sem kórónuveiran hefur skapað.

Unnur Katrín Valdimarsdóttir, ávallt kölluð Kata, er ein þeirra bjartsýnu. Hún er ferðaþjónustubóndi í frístundabyggðinni Nátthaga, Suðurnesjabæ, og lítur á núverandi ástand sem tímabundið, sem það auðvitað er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kata veit að það skiptir svo miklu máli hvernig við tölum og hvað við segjum um hlutina og þess vegna kýs hún að vera jákvæð og hafa trú á því sem hún er að gera. Hún segir nýjar hugmyndir hafa skotið upp kollinum hjá sér undanfarið, hugmyndir sem gleðja hana og efla til dáða. Við áttum spjall saman um heima og geima hreinlega, því konan er ansi víðförul, hefur ferðast og dvalið langdvölum víða um heim.

Við gefum Kötu orðið.

Ólst upp í Garðinum

„Foreldrar mínir flúðu gosið í Vestmannaeyjum þegar mamma gekk með mig árið 1973 og er ég oft kölluð Gosbarnið í fjölskyldunni því eldgosið var auðvitað þetta ár. Foreldrar mínir fluttu fyrst til Akraness og svo í Garðinn. Þar ólst ég upp, lék mér með krökkunum við höfnina, síkið, í fjörunni og úti í móa, þetta voru leiksvæðin okkar. Náttúran hafði mikil áhrif á mig í uppvextinum og gerði mig að náttúrubarni. Það voru mikil forréttindi að alast upp í Garðinum í kringum þessa náttúru,“ segir hún og ljómar en Kata gerir það gjarnan þegar hún talar, full af lífsgleði og krafti – þessi kona sem við getum léttilega kallað eldhuga. Það eru ekki allar einhleypar konur jafn hugrakkar og hún, að ferðast aleinar um heiminn, aðeins með bakpoka eða að festa kaup á heilli sumarhúsabyggð og ætla sér að lifa af því en það gerir Kata. Hún segist vera nægjusöm og þess vegna hafi mörg ævintýra hennar gengið upp. Hún er hagsýn og skynsöm.

„Ég byrjaði í Kína, fór þaðan til Filippseyja, Singapore, Malasíu, Tælands og Kambódíu. Þegar ég ferðast þá er ég opin fyrir upplifunum, er ekki með fast ferðaplan og stoppa lengur á stað þar sem ég kynnist fólki sem býr þar. Ég kýs að vera í flæðinu og sjá hvert lífið leiðir mig á ferðalaginu...“

Víðförul heimskona

Kata er forvitin um lönd sem bjóða upp á aðra menningu en við þekkjum á Íslandi. Henni finnst best að ferðast létt, með bakpoka og vera með laus ferðaplön, leyfa frekar lífinu að sýna sér eitthvað forvitnilegt og fræðandi.

„Ferðalög hafa alltaf freistað mín og ég ferðaðist töluvert um heiminn þegar sonur minn var orðinn stálpaður og gat bjargað sér sjálfur – en við mæðgin urðum fyrir áfalli þegar hann var níu ára og faðir hans lést skyndilega. Þá urðu þáttaskil í lífi okkar beggja. Það var mjög erfitt tímabil sem kenndi okkur margt. Þetta ýtti einnig við sálartetrinu í mér. Þegar sonurinn var fimmtán ára sagðist hann vilja fara til Kína að læra og ég samþykkti það því ég vissi hann þurfti það. Hann fór til Kína til að læra bardagalistir og kínversku. Þarna dvaldi hann í sex mánuði og á meðan fór ég með bakpoka til Mið-Ameríku og var jafn lengi og hann í burtu. Þetta var í október 2008 sem við fórum í þessi ferðalög. Ég sendi strákinn minn út í heim og fékk til baka fullorðinn mann, svo mikið þroskaðist hann á þessari dvöl í Kína. Hann hefur farið tvisvar þangað, er rosalega duglegur og stundar nú nám í tölvunarfræði við háskólann,“ segir Kata stolt og heldur áfram frásögn sinni um ferðalagið hennar:

„Ferðalagið mitt sama ár var í fyrsta sinn sem ég fór á ókunnar slóðir. Ég fór til Mexíkó, Belize, Costa Rica, Panama, Nicaragua, Honduras, El Salvador og Guatemala, tók allan skagann í Mið-Ameríku. Ég ákvað að ferðast létt og var forvitin um aðra menningarheima. Ég fór meðal annars í fallhlífarstökk, gekk í viku um frumskóga Tikal með frumbyggja og lærði á brimbretti og fleira skemmtilegt á þessum suðrænu slóðum. Þegar ég kom heim þá fór ég í nám hjá Keili í verk- og raunvísindum, kláraði það með sóma, fór svo í ferðamálafræði í eitt ár. Í ferðamálanáminu gerði ég mér grein fyrir því að ég heillaðist meira af fólki, menningu, trúar- og helgisiðum og matarvenjum annarra þjóða en landinu sjálfu, fattaði að mig langaði ekki að verða ferðamálafræðingur, heldur læra dýpra um manneskjuna. Það togaði í mig að fara í mannfræði í háskólanum. Ég var samt komin með ferðaþrá og safnaði mér fyrir næstu utanlandsferð sem ég fór í til Suðaustur-Asíu í sex mánuði og þá hitti ég soninn minn í Kína sem var kominn þangað aftur í nám í bardagalistum. Ég byrjaði í Kína, fór þaðan til Filippseyja, Singapore, Malasíu, Tælands og Kambódíu. Þegar ég ferðast þá er ég opin fyrir upplifunum, er ekki með fast ferðaplan og stoppa lengur á stað þar sem ég kynnist fólki sem býr þar. Ég kýs að vera í flæðinu og sjá hvert lífið leiðir mig á ferðalaginu og hef alltaf verið heppin og kynnst góðu fólki. Jákvætt viðhorf, að búast við því góða, hefur laðað til mín það góða. Verðlag í þessum löndum er miklu lægra en hér á Íslandi og maður kemst ansi langt á einum þúsundkalli. Eftir þetta ferðalag kem ég heim og breyti náminu sem sagt og fer í mannfræði, sem er mjög áhugaverð fræðigrein. Ég safnaði alltaf pening fyrir næsta ævintýri á meðan ég vann og stundaði nám. Næst fór ég til Indlands og dvaldi þar í þrjá mánuði. Þar kynntist ég jógaheimspeki og Ayurveda (Science of Life) sem er stundum kölluð Móðir allrar heilunar en á Indlandi eru reknar margar svona heilsustofnanir sem bjóða Ayurveda-heilsumeðferðir. Ég stúderaði Ayurveda-mataræði. Þarna dvaldi ég í Goa á Indlandi og lærði margskonar jóganálganir úti í skógi, allt frá Yoga Nidra til -Ashtanga Yoga. Þarna náði ég mér í full jógakennararéttindi (200ryt). Hugleiðsla verður daglegur þáttur af degi mínum þarna og er enn. Hugleiðsla er frábær til þess að hjálpa okkur að þagga niður í síbylju hugans, halda innri ró og ekki síst góð í gegnum krefjandi tíma eins og núna. Ég gæti alveg verið stressuð í þessu ástandi en hugleiðslan hjálpar mér að lifa út frá hjarta mínu en ekki hausnum. Fyrsta ferðin mín til Indlands breytti miklu fyrir mig, ég lærði svo margt um sjálfa mig og mannlega nálgun í dvölinni þar.“

Útlönd toguðu í hana

Nú var Kata komin með ferðabakteríuna og langaði að fara aftur til Indlands en nú á mjög krefjandi tíu daga hugleiðslunámskeið sem ekki margir ná að klára.

„Svona leið lífið mitt á þessum árum, ég ferðaðist og kom heim, vann, og þá aðallega við þjónustustörf, lærði meira í mannfræði og safnaði fyrir næsta ferðalagi. Ég stoppaði stutt heima á Íslandi og fór aftur til Indlands á tíu daga Vipassana-hugleiðslunámskeið. Það má kalla þessa hugleiðsluaðferð auðmjúka þögn á íslensku, þar sem þáttakendur máttu ekki tala, horfast í augu, snertast, skrifa, engin sími og tölva eða lesa, heldur áttum við að hugleiða í átta klukkustundir á dag. Þetta var mögnuð upplifun og opnaði fyrir mér rödd sálarinnar innra með mér. Fyrri jógaferðin til Indlands hafði einnig gert það því jóga hjálpar okkur að tengja saman andann við líkama og sál. Við heyrum betur í okkar innri rödd og leiðsögn þegar við stundum jógaæfingar og hugleiðslu. Við erum tengdari inn á við. Í fyrri ferðinni minni til Indlands féllu mörg tár, þá varð mikil losun, allt sem ég hafði ekki fengið útrás fyrir kom upp á yfirborðið. Í þessari seinni ferð til Indlands þá varð þessi sama andlega hreinsun og fyrirgefning gagnvart sjálfri mér og öðrum. Að fyrirgefa er svo mikil heilun. Ég var samt miklu meira tilbúin fyrir þetta seinna ferðalag og að taka þátt í þögninni í tíu daga. Það var stórkostleg upplifun sem ég naut en þetta reyndist mörgum mjög erfitt og meira en helmingur hópsins datt út. Við vorum aðeins 40% af upphaflega hópnum sem kláruðum námskeiðið,“ segir hún og brosir, greinilega ánægð með að hafa staðist þetta námskeið.

Endurnærð eftir svona ferðalög

„Svo kem ég heim til Íslands og er endurnærð af þessari dvöl. Mér finnst ég alltaf endurnærð eftir svona ferðalög því ég læri svo margt í leiðinni og upplifi svo margt gott. Næsta ferðalag mitt var til Perú og dvaldi ég þar í sex vikur. Ég kynntist stelpu í Lima sem var mannfræðingur eins og ég en hún var að leigja út herbergi í Airbnb. Þegar ég hef farið í svona ferðalög þá er ég ekki búin að festa niður allt ferðalagið, kannski fyrstu næturnar en svo er ég meira í flæðinu, kynnist fólki og treysti að ég fái til mín það sem mig vantar hverju sinni. Það hefur alltaf gengið upp og gerir ferðalagið mjög skemmtilegt og spennandi. Jú, auðvitað verður maður að vera hugrakkur en mér hefur gengið vel. Hugarfarið skiptir öllu. Ég endaði þessa dvöl með því að dvelja inni í Amazon-skógi með frumbyggjum, sjaman, það er innfæddum sem eru samt orðnir ansi nútímavæddir margir. Þetta var samt mjög áhugaverð dvöl og þeir halda í forna siði í helgiathöfnum og fleira sem ég fékk að upplifa. Það var mjög forvitnilegt og hafði góð áhrif á mig. Mér finnst ég alltaf vaxa sem manneskja í hverri ferð sem ég hef farið á svona ókunnugar slóðir og óhefðbundnar. Að dvelja með sjaman í Amazon breytti öllu fyrir mig, það var mjög margt nýtt sem ég lærði með þeim,“ segir Kata og á ekki von á öðru en að fá að halda áfram að ferðast og lét sig dreyma næst um ferðalag til Indónesíu en örlagadísirnir breyttu þeirri áætlun.

Örlögin grípa í taumana

„Í október árið 2018 var ég á leiðinni til Indónesíu þegar mamma mín fékk heilablóðfall og það stoppaði öll mín ferðaplön, eðlilega. Nú þurfti mamma á mér að halda og ég vildi vera til staðar fyrir hana og er enn, því í dag dvelur hún á Nesvöllum. Ég varð að jarðtengja mig inn á þetta verkefni í kringum mömmu mína og gleyma ferðalögum til útlanda. Það leið smá tími þar til nýr draumur bankaði samt á dyrnar hjá mér en við fjölskyldan vorum á fullu að sinna mömmu. Faðir minn lést árið 2014. Hugur minn fer að leita að tækifærum hér heima. Ég saknaði þess að sjá ekki heiminn. Svo datt ég inn á þetta, sumarhúsabyggð í Nátthaga, sem var til sölu á þeim tíma. Ég var lengi að velta því fyrir mér hvort ég ætti að stökkva. Ræddi hugmyndina við bróður minn sem hvatti mig áfram. Ég er dálítið þannig að þegar ég er að ákveða mig, búa til ferðaplön eða annað, þá vil ég ekki ræða það við marga, því fólk hefur allskonar skoðanir á því sem maður gerir og það getur bara truflað innsæi manns. Þegar ég gat ekki farið lengur út í heim þá langaði mig að heimurinn kæmi til mín og það gerir hann svo sannarlega í dag,“ segir Kata og ljómar, greinilega sátt við hlutskipti sitt og örlög sín.

Úr mannfræði í ferðamennsku

„Ég vissi alltaf af þessum sumarhúsum, að þau væru til sölu, en ég vildi vera frjáls. Þarna, á þessum tímapunkti voru aðstæður í lífi mínu þó breyttar og mig langaði að vera heima nálægt móður minni og ákvað að festa kaup á sumarhúsunum. Bróðir minn veitti mér mestu hvatninguna varðandi þessa ákvörðun og þegar hann sagði við mig að hann hefði trú á mér, þá varð það til þess að ég stökk. Það var svo 31. maí árið 2019 sem ég byrja minn eigin rekstur á Sandgerði Cottages í Nátthaga, Suðurnesjabæ. Mér var einstaklega vel tekið af íbúum í Nátthaga og hefur fyrrverandi eigandi og kona hans reynst mér mjög vel.

Þegar ég kaupi þá sé ég tækifærin í húsunum og í umhverfinu í kringum þau, þessi hráa, ósnerta náttúra, ströndin, hafið og brimið. Svo auðvitað þetta skipulagða umhverfi sem golfvöllurinn er fyrir þá sem vilja spila golf. Náttúran í Nátthaga iðar af fuglalífi á sumrin og á veturna eru hér svanir sem dvelja vetrarlangt við tjörnina. Vindarnir blása en hér getur einnig verið stafalogn. Umhverfið er mjög heillandi, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn. Ég ákvað að leigja mér hús hérna sjálf hjá nágranna mínum og bý í efri byggð Nátthaga og líkar mjög vel,“ segir hún.

Covid og ný tækifæri

Það er mjög óvenjulegt að tala við Kötu og heyra viðhorf hennar til Covid því hún segist nýta þennan tíma mjög vel núna til að búa til nýjar hugmyndir og byggja upp innviði fyrirtækisins. Það er ekkert jarm í þessari viðskiptakonu.

„Ég byrjaði strax í upphafi að taka á móti gestum, það var alltaf fullt hjá mér, alveg þar til Covid kom, þá varð hlé á traffíkinni. Í fyrstu bylgju nýtti ég tímann til að mála innandyra en svo fór -traffíkin af stað aftur. Fyrst voru það Íslendingar og fólkið sjálft sem býr í landinu okkar sem vildi leigja um helgar en svo hafa erlendir ferðamenn einnig verið að koma aftur og leigja af mér. Það er rólegra yfir á virkum dögum en um helgar er nýtingin betri. Frá því að ég keypti húsin þá hef ég tekið þau öll í gegn, uppfært húsin, dúlla og nostra við þau eins og ég vil hafa þau. Set mitt handbragð á stílinn og er enn að. Þetta er rosa gaman og auðvitað oft mjög krefjandi en ég var alla daga fyrsta sumarið að mála utandyra. Nú hef ég verið að hugsa upp nýjar leiðir til að kynna húsin, búa til markaðsáætlun, huga að heimasíðu, uppfæra bókunarkerfið og fleira sem áður vannst ekki tími til. Það er rólegra núna en á meðan nýti ég tímann vel. Ég elska þetta starf, að taka á móti fólki, að búa húsin þannig að fólk finni góðan anda í húsunum, að öllum líði vel sem koma í Nátthaga. Ég sé þennan stað sem heilunarstað í náttúrunni. Hér í þögninni fær fólk hvíld og ró. Það verður einnig aðalatriðið eftir Covid. Fólk sem er búið að vera heft og lokað inni eða verið hrætt í Covid getur komið hingað og undið ofan af sér. Farið út að labba, verið niður við sjóinn og leyft náttúrunni að hreinsa anda sinn. Ég hef einmitt fengið fullt af svoleiðis gestum, fólk sem er að leita að þessari ró, bæði listafólk, heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem þrá þögnina og nálægð við náttúru. Svo hef ég fengið gesti sem koma í helgardvöl til að kúra inni og njóta þess að fara í heita pottinn, hafa það gott í sveitinni sem er þó staðsett í miðjum Suðurnesjabæ,“ segir Kata hlýlega og bætir við:

Þetta á allt eftir að verða miklu betra

„Þegar Covid kom og bókanir urðu allt í einu færri þá tók ég ákvörðun um að þessi tími byði mér upp á tækifæri sem ég hef svo nýtt mér. Þessi tími er mjög dýrmætur. Ég hef ekki orðið hrædd um afkomu mína heldur haft trú á að hingað haldi gestir áfram að streyma og allt í einu fóru hjólin að snúast aftur. Kannski vegna þess að ég sá flæði allan tímann? Ég var jákvæð, hélt í innri frið með því að hugleiða kvölds og morgna og lét ekki hugann hræða úr mér líftóruna. Það skiptir svo miklu máli að hafa kollinn í lagi.

Þetta ár hefur gefið mér meiri tíma til að huga að innra starfinu, hvernig ég vil að gestir upplifi dvölina hjá mér. Ég kíkti í heimsókn nýlega á Markaðsstofu Reykjaness til að gá hvers konar markaðsþjónustu þau geta veitt mér varðandi reksturinn. Þar var tekið vel á móti mér og ég er komin í samræður við þau um framhaldið, sé enn fleiri ný tækifæri og hvernig uppbyggingu hægt er að skapa í ferðamennsku á Reykjanesi. Það var virkilega gott að tengjast þeim sem starfa á Markaðsstofu Reykjaness, frambærilegt fólk og við erum að skoða saman skemmtilega möguleika. Það væri gaman að sjá ferðaþjónustuaðila hér á svæðinu taka höndum saman og einnig þá sem geta boðið upp á upplifanir. Samvinna er ávinningur fyrir alla og ekki síst fyrir Reykjanes sem við viljum koma betur á kortið.“

„Það er kannski skrítið en í Covid hef ég fundið fyrir miklu þakklæti þrátt fyrir óvissu og álag. Ég er búin að skoða heiminn í bili. Nú fæ ég heiminn til mín. Lífið hefur kennt mér það að þegar ég fer í gegnum erfiðleika með opnum huga, þá opnast fyrir ný tækifæri. Það versta getur oft breyst í það besta...“

Allskonar ferðamenn geta notið sín hér hjá okkur

Kata er ekki eingöngu að hugsa um erlenda ferðamenn heldur veit hún að framtíðin í ferðamennsku á Íslandi snýst einnig um fólkið í landinu. Það má ekki gleyma þeim sem búa hér allt árið, þessu fólki langar einnig að njóta lands síns. Það sáum við svo glöggt í sumar þegar fólk komst ekki til útlanda. Íslendingar og aðrir eru að uppgötva Ísland sem áfangastað og nú þarf að kynna Reykjanes fyrir þeim, töfrana sem eru hér í náttúrunni og því kraftmikla fólki sem býr hér á Suðurnesjum. Kata er með ákveðnar hugmyndir.

„Við erum ekki bara að tala um erlenda ferðamenn, heldur einnig fólkið sem býr í landinu. Við viljum fá það til að koma í heimsókn og upplifa magnaða náttúru hér. Náttúruöflin í allri sinni mynd. Það er mjög algengt með erlenda ferðamenn að þeir eyði fyrstu og síðustu nóttinni hér hjá okkur en við þurfum að fá þau til að stoppa lengur, sjá meira af svæðinu. Fólk gerir sé oft ekki grein fyrir hvað svæðið hefur upp á margt að bjóða. Ég veit að landfræðingar og jarðeðlisfræðingar sjá Reykjanesskagann sem hafsjó tækifæra til rannsókna og skoðunar en svæðið er einnig svo dulmagnað. Það er þessi dulúð sem hvílir yfir svæðinu sem getur leitt gesti til okkar, bæði innlenda og erlenda. Það er nóg í boði af upplifunum hér og ef við tökum okkur saman þá getum við skapað öflugan segul á Reykjanesi og haldið ferðamönnum lengur. Þar sé ég tækifæri.

Mig langar að gestir sem leita til mín í Nátthaga geti fundið innri frið og ró, tengingu við náttúruna og upplifi ákveðna heilun í náttúrunni. Húsin mín gefa möguleika á allskonar námskeiðahaldi, heilsudvöl og fleira því sem fólki getur dottið í hug að bjóða upp á. Það eru heitir pottar við hvert hús sem gefur dvölinni enn meira gildi. Fólk elskar að slappa af í heita vatninu í myrkrinu á kvöldin. Þegar það er stjörnubjart og norðurljósin ljóma, þá gerast töfrar en það er engin ljósmengun í Nátthaga frá ljósastaurum. Hér er fullkomið myrkur á veturna til að njóta norðurljósanna.

Mér finnst æðislega gaman að taka á móti gestum og legg ég mig fram um að vera til staðar fyrir þá. Best er þegar persónuleg tengsl verða. Það er mikilvægt að sjá ferðamanninn og manneskjuna á bak við hann. Þegar upp er staðið er það, það sem við öll viljum, vera séð og heyrð. Þetta veitir mér mestu ánægjuna. Ég elska að hlúa að gestum, nostra við öll smáatriði svo að gestir mínir finni alúð og hlýleika þegar þeir dvelja í húsunum.

Það er kannski skrítið en í Covid hef ég fundið fyrir miklu þakklæti þrátt fyrir óvissu og álag. Ég er búin að skoða heiminn í bili. Nú fæ ég heiminn til mín. Lífið hefur kennt mér það að þegar ég fer í gegnum erfiðleika með opnum huga, þá opnast fyrir ný tækifæri. Það versta getur oft breyst í það besta,“ segir Kata að lokum og það er margt til í þeirri lífsspeki hjá þessari kraftmiklu konu.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun ferðamennsku næstu mánuði á Suðurnesjum, svæði sem ferðaþjónustan hefur ákveðið að kalla Reykjanes því það nafn er þjálla í markaðssetningu.

Myndir: Marta Eiríksdóttir og úr einkasafni Kötu.

Í Mið-Ameríku mátti sjá mikið af hermönnum. Hér kynntist Unnur og Anja, belgískur ferðafélagi hennar, tveimur slíkum og fengu þær að forvitnast um hugarheim þeirra.

Kata og Kristinn sonur hennar, við eitt mustera Angkor Wat í Kambódíu.

Angor Wat í Kambódíu eru stærstu trúarmusteri heims, frá 12. öld. Hér má sjá áhrif búddisma og hindúisma.

Kata ásamt Signe Skriver frá Kaupamannahöfn við búddahof í Tælandi. Í dag er hún ein af bestu vinkonum hennar, heimsflakkari eins og Unnur.

Kata og Kristinn Ingi, sonur hennar með meistara hans í Kína.

Þessari litlu stúlku kynntist Kata í Malasíu og urðu þær góðar vinkonur á meðan hún dvaldi þar.

Kata er búin að taka öll sumarhúsin sín í gegn að innan sem utan.