Notalegir tónleikar með Siggu Beinteins
Sigga Beinteins heldur jólatónleika í Keflavíkurkirkju annað kvöld kl. 20, þá fyrstu í röð tónleika sem hún heldur í kirkjum landsins um þessi jól. Nýlega kom út nýr diskur hennar sem ber nafnið Jólalögin mín en þar er úrval jólalaga sem Sigga hefur sungið á sínum glæsilega tónlistarferli og gert klassísk.
„Ég flyt lög af þessum diskum í bland við nokkur lög af sólódiskunum mínum. Fólk yrði kannski svekkt ef ég tæki þau ekki. Aðventan er heldur ekki alveg komin þannig að ég vildi blanda þessu aðeins,“ segir Sigga aðspurð um tónleikana. Á nýja disknum hennar er safn jólalaga sem hún hefur sungið, t.d. hinir vinsælu dúettar með Björgvini Halldórssyni.
Að sögn Siggu eru einnig á disknum lög sem fólk hefur ekki heyrt mikið af og sum ekki komið út áður, t.d. nýtt lag eftir Þorvald Bjarna og Andreu Gylfadóttur.
Hátt í þrír áratugir eru síðan Sigga Beinteins hóf sinn tónlistarferil og á þeim tíma hefur hún sungið fjöldan allan af jólalögum þannig að geta má nærri að það hafi verið erfitt fyrir söngkonuna að velja lög á diskinn. „Ég hefði alveg getað gert tvöfaldan disk en ég ákvað frekar að gera einn 20 laga disk þar sem ég gat raðað saman þeim lögum sem mér fannst vera best,“ segir Sigga.
Á tónleikum annað kvöld verður Sigga í góðum félagsskap Grétars Örvarssonar sem hefur verið hennar helsti samstarfsmaður í gegnum ferilinn. Hann leikur á flygil á tónleikunum. Þá mun Matthías Stefánsson sjá um gítar- og fiðluleik. „Þeir eru búnir útsetja þetta mjög skemmtilega fyrir þessi hljóðfæri sem hæfa ákaflega vel í kirkju til að skapa notalega og hugglega stemmningu, sem er markmiðið með þessum tónleikum. Hafa þetta fallegt og ljúft og láta fólki líða vel,“ segir Sigga.