Njarðvíkurskóli fékk fyrstu verðlaun
Með besta verkefnið á landsvísu í keppninni Aðgengi að lífinu.
Hópur nemenda í Njarðvíkurskóla fékk í dag fyrstu verðlaun fyrir besta verkefnið í liðakeppninni Aðgengi að lífinu sem MND félagið á Íslandi og SEM samtökin, með stuðningi velferðar-, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fóru með af stað í haust meðal 10. bekkinga á landsvísu.
Verðlaunaafhendingin fór fram í Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin. Verðlaunin sem hópurinn frá Njarðvíkurskóla fékk fyrir 1. sæti voru ekki að verri endanum: allir nemendurnir fjórir fengu iPhone 6 snjallsíma. Í sigurliði Njarðvíkurskóla voru Agnes Margrét Garðarsdóttir, Karen Jóna Steinarsdóttir, Laufey Guðrún Vilhjálmsdóttir og Már Gunnarsson, allt nemendur í 10. bekk í Njarðvíkurskóla.
Verkefnið fól í sér könnun á aðgengismálum hreyfihamlaðra í nærumhverfi ungmennanna. Tilgangur verkefnisins var að efla skilning ungmenna á aðstæðum hreyfihamlaðra, stuðla að bættu aðgengi hreyfihamlaðra með lausnum ungs fólks og skapa jafnréttisgrundvöll á milli hreyfihamlaðra og óhreyfihamlaðra.
Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins og Arnar Helgi Lárusson formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra heimsóttu Njarðvíkurskóla í október og kynntu verkefnið og aðstæður hreyfihamlaðra. Verkefnið fór þannig fram að hópnum var afhentur hjólastóll í einn sólarhring til þess að greina hindranir í nærumhverfi sínu, til dæmis að komast í tómstundastarf, fara í verslanir, komast á bókasafn og svo framvegis.
Hópur frá Víkurskóla endaði í öðru sæti, þar sem verðlaunin voru Playstation 4 leikjatölva. Hópur frá Hólmavíkurskóla endaði í þriðja sæti og fengu 50.000 kr. hver og einn.