NJARÐVÍKURSKÓLI:
Njarðvíkurskóli verður ekki einsetinn fyrr en haustið 2000. Einsetning annarra skóla í Reykjanesbæ og tilkoma Heiðarskóla hefur þó haft nokkur áhrif á starfsemi Njarðvíkurskóla. ,,Í haust hefja 442 nemendur nám, segir Gylfi Guðmundsson skólastjóri, en í fyrra voru hér 523 nemendur. Skýringin er sú að nú skiptist nemendafjöldi á fjóra skóla í stað þriggja.”Hafa verið einhverjar stórframkvæmdir við skólann í sumar?,,Ekki nema eðlilegt viðhald og svo fengum við glæsilegt skólaeldhús með öllum tækjum og tólum. Þar munu þrjár konur sjá um að laga mat fyrir nemendur. Krakkarnir geta keypt heita máltíð eða súpu og brauð fyrir 200 krónur. Nýbyggingin verður hins vegar ekki tilbúin fyrr en haustið 2000, þá verður skólinn einsetinn.”Hvernig líst þér á einsetninguna?,,Mér líst afar vel á hana. Hún gæti reyndar komið illa út fyrir suma kennara því þeir fá ekki eins mikla vinnu og áður. Yfirvinna hjá kennurum yngri bekkja hverfur og þeir fá bara að kenna hálfan daginn.”Eru fleiri breytingar í bígerð?,,Ég hef mikinn áhuga á að setja upp heimanámskerfi sem myndi örugglega bæta samskiptamynstur fjölskyldunnar. Þegar krakkarnir koma heim úr skóla og foreldrarnir heim úr vinnu þá væru allir búnir með sína vinnu og fjölskyldan gæti eytt meiri tíma saman.”Hvernig gekk að ráða starfsfólk?,,Í vor hélt ég að ég væri með of mikið af fólki og vísaði því fólki frá. Í sumar gerist það að ég missi kennara sem ég var búin að ráða og allt í einu vantaði mig fólk. Ég hef fengið ágætt fólk til starfa, kennara og nokkra vel menntaða leiðbeinendur. Skólaskrifstofan hefur staðið sig vel í að útvega stuðningsfulltrúa, ég er að ganga frá þeim málum núna.”Einhver lokaorð til Reykjanesbæinga?,,Ég er bjartsýnn á veturinn. Hér er gott fólk og ég trúi því að það skili sér í starfi okkar í vetur.Allar upplýsingar um skólastarf er að finna á heimasíðu skólans. Slóðin er http://www.njardvik.is Innan tíðar verður opnað vefborð á heimasíðunni þar sem foreldrar fá tækifæri á að koma að athugasemdum.”