Mannlíf

Njarðvíkingur skrifar um fjölmennasta morð tuttugustu aldarinnar
Sigríður Dúa Goldsworthy, höfundur bókarinnar.
Mánudagur 18. desember 2023 kl. 08:36

Njarðvíkingur skrifar um fjölmennasta morð tuttugustu aldarinnar

Bókin Morðin í Dillonshúsi fjallar um fjölskylduharmleik

Morðin í Dillonshúsi er þriðja bók Njarðvíkingsins Sigríðar Dúu Goldsworthy sem kom út nýlega. Hér er á ferðinni fjölskyldusaga og ævisaga ömmu hennar, Sigríðar Ögmundsdóttur, og Huldu Karenar Larsen, dóttur hennar.

Bókin hefst í desember 1918 þegar Sigríður er ung og án baklands í Reykjavík. Hún lendir þar í ýmsum hrakningum en kynnist svo dönskum manni, Kai Larsen, og eignast Huldu Karen með honum. Kai svíkur Sigríði, svo þær mæðgur eru tvær einar og lífsbaráttan er hörð.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það gengur á ýmsu þessi ár Sigríðar í Reykjavík en svo fer það þannig að hún kynnist Karli Dúasyni, manni úr Fljótunum og flytur með honum norður á Siglufjörð. Þar byggja þau húsið Hvanneyrarhlíð og þeim fæðast fleiri börn. Þekktast þeirra mun vera Grímur Karlsson skipstjóri og bátslíkanasmiður.

Fjölskylda Sigríðar
Standandi frá vinstri: Æsa, Hulda Karen. Neðri röð frá vinstri: Grímur í fanginu á Karli, föður sínum, Ásdís, Áslaug, og Sigríður situr með Dúa.

Árið 1950 flytur fjölskyldan til Njarðvíkur.

Hulda Karen, dóttir Sigríðar, giftist Sigurði Magnússyni, lyfjafræðingi, árið 1944 og flutti með honum til Reykjavíkur. Lífið virtist blasa við Huldu, gift vel menntuðum og stórættuðum manni. Þau hjónin eignuðust þrjú börn Magnús, Sigríði Dúu og Ingibjörgu Stefaníu. En árið 1950 fer að bera á heilsubresti hjá Sigurði. Hann átti við geðræn vandkvæði að stríða, en slíku fylgdi að hans mati mikil skömm. Á þessum tíma var lítið um hjálp fyrir þá sem veiktust andlega. Sú meðferð sem í boði var reyndist oft gróf (rafstuð eða hvítskurður/lobotomy) og skilaði litlum eða slæmum árangri. Að líkindum spilaði viðhorf Sigurðar til sjúkdómsins, skoðun hans á því að fjölskylda væri eign eiginmannsins og það hverra manna hann var saman þegar hann tók skelfilega ákvörðun. 26. febrúar 1953 framdi Sigurður fjölmennasta morð tuttugustu aldarinnar á Íslandi, þegar að hann myrti Huldu konu sína og börnin þeirra þrjú með eitri áður en hann tók eigið líf með sama hætti.

Þessi harmleikur litaði líf allra sem eftir lifðu, og þar endar bókin.

Fjölskyldan í Dillonshúsi
Frá vinstri: Hulda Karen, Magnús, Sigríður Dúa, Ingibjörg Stefanía og Sigurður.


„Þegar ég var rétt um tvítugt, báðu Sigríður amma mín og Ásdís dóttir hennar (sem bjó hjá fjölskyldunni í Dillonshúsi þegar voðaverkið var framið) mig um að segja sögu fjölskyldunnar. Þær létu mig hafa gögn og ég skrifaði niður frásagnir þeirra. Einnig sagði Sigríður mér frá sínu lífi og lét mig hafa gögn þar um. Ég fór því að taka viðtöl við fleiri sem tengdust málinu og lagðist í mjög mikla heimildarvinnu. Það er því fyrir beiðni Sigríðar og Ásdísar sem þessi bók hefur orðið til, núna 40 árum eftir að ég var fyrst beðin um það og 70 árum eftir morðin hræðilegu,“ segir Sigríður Dúa.