NFS með Aldamótatónleika í beinu streymi á vf.is á föstudagskvöld
- tónlistarveisla í beinni útsendingu á vef Víkurfrétta
Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, NFS, stendur fyrir streymistónleikum næstkomandi föstudagskvöld. Á tónleikunum koma fram Magni (Á Móti Sól), Hreimur (Land & Synir), Jónsi (Svörtum Fötum), Einar Ágúst (Skítamórall), Gunni Óla (Skítamórall) ásamt frábærum hljóðfæraleikurum.. Um er að ræða hina svokölluðu Aldamótatónleika sem haldnir hafa verið við miklar vinsældir á undanförnum árum. Vegna kórónuveirufaraldursins stefndi í að tónleikarnir yrðu ekki í ár en þá ákvað nemendafélagið að koma að málinu og bjóða upp á tónleikana í beinu streymi sem verður á vef Víkurfrétta, vf.is.
Tónleikarnir á föstudagskvöld hefjast kl. 20:00 og verður streymið opið öllum. „Við ætluðum fyrst að hafa þetta eingöngu fyrir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja en svo var tekin ákvörðun um að hafa þetta bara opið fyrir alla. Þá erum við að horfa til þess að það eru lokanir og eina tónlistardagskráin sem hefur verið í boði er Helgi í sjónvarpinu. Núna erum við að stækka ramman þannig að fólk fær að sjá aðeins meira. Ég held að fólk muni fíla þetta og þessi dagskrá er fyrir alla aldurshópa. Ungt fólk hefur gaman af íslenskri tónlist og sérstaklega núna þegar líða tekur að sumrinu. Svo eiga þessir tónlistarmenn líka stóran aðdáendahóp frá því þeir voru hvað vinsælastir um síðustu aldamót,“ segir Hermann Nökkvi Gunnarsson, formaður NFS í samtali við Víkurfréttir.
Flytjendurnir munu blanda góðan tónlistarkokteil allt föstudagskvöldið. Rólegu ballöðurnar verða fyrri hlutann „en síðan henda þeir sér í sprengjurnar og öll rokklögin þegar líður á kvöldið,“ segir Hermann Nökkvi.
Aldamótatónleikarnir verða settir upp í heimahúsi og farið að öllum sóttvarnarreglum. Þannig verður allt umstang í kringum tónleikana takmarkað við eins fáa og mögulegt er.
„Við hjá nemendafélaginu höfum verið að reyna að gera okkar besta í vetur til að halda uppi félagslífi og skemmtun fyrir nemendur í skólanum. Til dæmis héldum við bílatónleika í vetur og höfum nýtt þá glugga sem hafa opnast til að vera með viðburði. Það hefur verið okkar markmið að brjóta upp veturinn og gera okkar besta,“ segir Ingibjörg Birta, framkvæmdastjóri NFS.
Auk þessa tónleikahalds í vetur hefur nemendafélagið komið að Valentínusarviku sem haldin var í skólanum og einnig góðgerðarviku. Á síðustu önn voru svo spurningaleikir á netinu þannig að við höfum getað haldið ákveðinni tíðni af viðburðum. Þannig hafa FS-ingar jafnvel getað haldið meira félagslíf en margir aðrir framhaldsskólar í landinu og horft hefur verið til þess sem Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið að gera. Þau Hermenn Nökkvi og Ingibjörg Birta segja þetta kannski helst vera leiðinlegast fyrir nýnemana sem hafa enn ekki fengið að fara á fyrsta skólaballið. „Það hefur líka verið krefjandi að gera eitthvað og fá nemendur til að taka þátt eða horfa á streymi,“ segir Ingibjörg Birta.
Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja greiða árleg gjöld til nemendafélagsins sem er ætlað að standa undir félagslífi í skólanum. Nemendafélaginu er skylt að ráðstafa þessum fjármunum innan annarinnar og það er því með þessum félagsgjöldum sem Aldamótatónleikarnir nú eru haldnir og sama á við um bílatónleikana sem voru í vetur.
„Síðustu tvær til þrjár annir í skólanum hafa krafist þess að við hugsum út fyrir kassann. Stjórnir í nemendafélaginu hverju sinni hafa getað leitað í reynslubanka síðustu ára en því er ekki fyrir að fara núna í kórónuveirunni. Við settumst því bara niður á hugmyndafund og ákváðum að fara nýjar leiðir,“ segja þau Hermann Nökkvi og Ingibjörg Birta að endingu.