Neyðarbirgðir notaðar á hrekkjavöku
Árleg hrekkjavaka hófst í gær. Víða mátti sjá ógnvekjandi skreytingar í hverfum, t.a.m. í Innri-Njarðvík og á Ásbrú. Þar tóka íbúar sig saman og dreifðu miðum í sínu nærumhverfi sem hvatningu um þátttöku. Heimilin sem tóku þátt höfðu ýmist kveikt á útiljósum eða í forstofu eða grasker með kertaljósum til auðkenningar. Bæði börn og fullorðnir klæddust búningum og gengu á milli húsa.
Meðal þeirra sem tóku fullan þátt var Rósa Guðmundsdóttir og fjölskylda, en þau búa í Innri-Njarðvík. Hún bakaði ýmsar kökur sem skreyttar voru í anda hátíðarinnar og skreytti heimilið. Hún segir að almennt taki fólk vel í þetta uppátæki og þeir sem ekki vilji vera með hafi einfaldlega slökkt ljós hjá sér og verði því ekki fyrir ónæði. Hún segir að vel á annað hundrað börn hafi bankað upp á hjá þeim í gærkvöldi og varð hún að sækja gotterí í „neyðarbirgðirnar“ sem hún átti. „Dætur mínar þrjár komu líka heim með margra vikna skammt af ávöxtum og sætindum,“ sagði Rósa hlæjandi.