Náttúruvika hófst í gær í góðviðrinu
Náttúruvika hófst í Grindavík í gær með fjölskylduskemmtun á Selatöngum sem eru um 10 km austur af Grindavík á Krýsuvíkurleið. Sigrún Jónsdóttir Franklín leiðsögumaður bauð þar upp á ýmsa verbúðarleiki og mætti þó nokkuð af fólki á þessar sögufrægu slóðir en á Selatöngum má sjá minjar um verbúðir og sjósókn fyrri tíða. Þá er þetta svæði ævintýri fyrir alla krakka.
Einmuna veðurblíða var í gær, glampandi sól og hiti. Fjórhjólaævintýri buðu upp á fjölskylduferð á fjórhjólum á Selatanga.
Náttúruvika heldur áfram á miðvikudaginn en þá verða Reykjanes gönguferðir með gönguferð í Eldfjallahring í Grindavíkurlandi. Gengið er eftir gamalli hrauntröð upp undir mikinn hamravegg, Gálgakletta og þaðan yfir Sundhnúk stærsta gíginn í samfelldri óraskaðri gígaröð, Sundhnúkagígaröð er á náttúruminjaskrá sem einstakt náttúruvætti.
Gengið verður áfram á Svartsengisfell 188 m. Ofan á fellinu er stór og myndarlegur gígur sem vert er að skoða auk útsýnis yfir Illahraun og Eldvörpin. Gangan tekur um 3 - 4 klst. Leiðsögumaður er Rannveig Garðarsdóttir, (sími 8938900) Mæting er kl. 19:00 við Grófina 2 - 4 230 Reykjanesbæ. Rútugjald er kr. 1.000.
Frétt frá grindavik.is