Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nándin í forgrunni á ATP tónlistarhátíðinni á Ásbrú
Tómas Young stýrir tónlistarhátíð á Ásbrú um helgina.
Fimmtudagur 27. júní 2013 kl. 08:57

Nándin í forgrunni á ATP tónlistarhátíðinni á Ásbrú

- Keflvíkingurinn Tómas Young stendur á bak við stóra tónlistarhátíð á Ásbrú um helgina

- Keflvíkingurinn Tómas Young stendur á bak við stóra tónlistarhátíð á Ásbrú um helgina

Það verður mikið um að vera í tónlistarlífinu á Suðurnesjum á morgun og laugardag. Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties [ATP] fer þá fram á Ásbrú. Um erlenda tónlistarhátíð er að ræða sem er haldin hér á landi í fyrsta sinn. Keflvíkingurinn Tómas Young stýrir hátíðinni hér á landi en hann er reynslumikill í þessum geira. Hann hefur verið tengiliður Íslands við Hróarskelduhátíðina í Danmörku um árabil og hefur einnig unnið að Iceland Airwaves hátíðinni. ATP tónlistarhátíðin er haldin víða um heim, þó aðallega í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Hátíðin fer fram á Íslandi fyrsta sinn í ár. Meðal þeirra sem leika á hátíðinni á Ásbú í ár er Nick Cave and The Bad Seeds ásamt fjölda þekktra erlendra og innlendra hljómsveita. Tómas var lengi með þá hugmynd í kollinum að stofna tónlistarhátíð í Reykjanesbæ en fyrir tveimur árum kom upp sú hugmynd að flytja ATP hátíðina til Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þessi hugmynd fæddist fyrir tveimur árum síðan og það er gaman að sjá að þetta er að verða að veruleika. Þetta er talsvert öðruvísi tónlistarhátíð en var hér í Reykjanesbæ fyrir skömmu. Við leggjum áherslu á gæði frekar en magn. Það eru um 20 hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni og þær spila hver um sig nokkuð langa tónleika,“ segir Tómas.

Tónlistarmenn keppa við aðdáendur sína í fótbolta

Segja má að Ásbrú verði undirlögð hátíðinni á morgun og á laugardag. Aðaltónleikastaðurinn verður Atlantic Studios sem er risastór skemma sem var áður viðgerðarverkstæði á tíma bandaríska hersins. Búið er að umbylta húsnæðinu og hentar það fullkomlega undir stóra tónleika.

„Atlantic Studios verður aðaltónleikastaðurinn og svo notum við Andrews Theatre undir nokkra minni tónleika. Þar verða þó aðallega bíósýningar sem Jim Jarmusch og Tilda Swinton munu stjórna. Officera-klúbburinn verður notaður sem bar og þar mun meðal annars Dr. Gunni stjórna Popppunkti. Að auki verður á laugardagsmorgninum fótboltamót þar sem hljómsveitirnar og aðdáendurnir keppa. Hugmyndin á bak við ATP er nándin sem skapast á milli hljómsveita og tónleikagesta. Nándin er í forgrunni,“ segir Tómas. Von er á talsverðum fjölda erlendra gesta og gerir Tómas ráð fyrir að þeir verði um 400 talsins. ATP hátíðin á Íslandi hefur fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun erlendis og munu blaðamenn frá NME, MTW og fleiri þekktum tónlistarfjölmiðlum mæta til landsins til að fjalla um hátíðina.

„Við höfum fengið góða umfjöllun á þekktum tónlistarvefsíðum. Þar er kannski helst að þakka nafni hátíðarinnar. Þetta er hátíð sem er haldin víða um heim og stjórnendur hátíðarinnar eiga gott samband við helstu tónlistarfjölmiðla heims. Það hefði verið erfiðara að vekja athygli á hátíðinni ef ég hefði sett á laggirnar mína eigin hátíð undir nýju nafni. Þetta setur hátíðina hér á landi óneitanlega fimm ár fram í tímann þegar horft er til þessara þátta. Ég er með þekkt vörumerki í höndunum.“

Swinton bað um að fá að koma

Hin heimsþekkta leikkona, Tilda Swinton, sem hreppti óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Michael Clayton, mun stýra dagskránni á bíósýningunum ásamt Jim Jarmusch. Tómas segir að þátttaka hennar á hátíðinni hafi komið nokkuð óvænt upp.

„Það var eiginlega bara slys,“ segir Tómas og brosir. „Tilda þekkir Jim og þau voru stödd á Cannes kvikmyndahátíðinni. Stjórnendur ATP voru einnig á þeirri hátíð. Málið þróast þannig að Tilda spurði hvort hún mætti fá að mæta á hátíðina hér á Ásbrú og fá að stýra bíódagskránni annan daginn. Við sögðum auðvitað já. Hún mun gista hér á svæðinu eins og hver annar tónleikagestur.“

Eignaðist barn skömmu fyrir hátíðina

Það hefur mikið gengið á í lífi Tómasar að undanförnu. Auk þess að setja á laggirnar stóra tónlistarhátíð á Ásbrú þá eignaðist hann sitt annað barn ásamt unnustu sinni, Klöru Dögg Steingrímsdóttur, fyrr í þessum mánuði. Það hefur því verið mikið álag á Tómasi sem er þó allur hinn rólegasti þegar Víkurfréttir ræddu við hann.

„Ég á góða að og sérstaklega góða konu. Margir vinir mínir eru að hjálpa mér með hátíðina. Ég get ekki kvartað. Ég vissi fyrir sex mánuðum að júní yrði nánast ómögulegur en ég undirbjó mig vel en sem betur fer þá kom strákurinn í heiminn 12. júní en ekki í dag,“ segir Tómas. Hann er bjartsýnn á að hátíðin eigi eftir að takast vel.

„Við ætlum að halda vandaða og vel heppnaða hátíð í ár og stækka hana kannski örlítið á næsta ári ef vel gengur.“ Enn er hægt að nálgast miða á hátíðina og eru Suðurnesjamenn hvattir til að láta hátíðina ekki framhjá sér fara. Miðasala fer fram á midi.is.