Námskeið í leik, söng og tjáningu
Gargandi snilld er heiti á fyrirtæki sem er að fara af stað með námskeið fyrir krakka á aldrinum 8-12 ára. Það er leiklistaráhugakonan Guðný Kristjánsdóttir sem loksins lætur gamlan draum rætast og ætlar að leiðbeina áhugasömum krökkum í leiklist, söng og tjáningu með það að markmiði að efla sjálfstraust, almenna framkomu og sköpunargleði. Kennslan byggist aðallega á leiklistaræfingum, léttum leikjum og hópefli en einnig verður lögð mikil áhersla á undirstöðuatriði í söng, raddbeytingu, framkomu á sviði, notkun
hljóðnema og fl.
Kennt verður á miðvikudögum, klukkutíma í senn, samtals í 8 vikur og er takmarkaður fjöldi á hvert námskeið tíu nemendur. Einn tími fer í að syngja lag inn á geisladisk í alvöru hljóðveri og fá þátttakendur að sjálfsögðu disk með sínu lagi til eignar. Í lok námskeiðsins verður svo uppákoma þar sem nemendur koma fram og sýna afrakstur námskeiðsins fyrir nánustu aðstandendur. Þá er ekki útilokað að einhverjir góðir gestir kíki í heimsókn.
Námskeiðið er unnið í samstarfi við Leikfélag Keflavíkur og fer kennsla fram í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17, þar sem aðstæður eru mjög góðar og allt til staðar.
Upplýsingar um skráningu er að finna í auglýsingu annarstaðar í blaðinu og allar nánari upplýsingar eru á www.gargandisnilld.is