Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 9. apríl 1999 kl. 20:42

NÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN OG FORELDRA

Börn eru líka fólk Börn eru líka fólk er yfirskrift námskeiðs sem nú stendur yfir í á vegum Félagsmálastofnunar Reykjanesbæjar í samvinnu við Vímulausa æsku. Námskeiðið er ætlað börnum á aldrinum 6 - 16 ára sem hafa búið við ofvirkni, athyglisbrest, alkóhólisma, fíknisjúdóma, geðræn vandamál, ofbeldi eða óöryggi af ýmsum toga innan fjölskyldu sinnar. Undirbúningur námskeiðsins hefur verið í höndum félagsráðgjafanna Rannveigar Einarsdóttur og Kristbjargar Leifsdóttur ásamt sálfræðingunum Sæmundi Hafsteinssyni og Berglindi Brynjólfsdóttur og segja þau áhuga á þeim vera mikinn. „Það virðist vera full þörf á slíkum námskeiðum í Reykjanesbæ en oft á tíðum hafa börnin gleymst þegar verið er að fjalla um vandamál fullorðinna og þaðan kemur yfirskriftin „Börn eru líka fólk”. Á námskeiðunum er reynt að kenna börnum á tilfinningar sínar en oft ná þau ekki að aðlagast umhverfi sínu vegna tilfinningavanda”, segir Rannveig. Reykjanesbær hefur aðgang að kennsluefni Vímulausrar æsku og hafa tveir kennarar Myllubakkaskóla tekið þátt í námskeiðinu. Námskeiðið Börn eru líka fölk er byggt að nokkru á Bandarískum meðferðarnámskeiðum fyrir börn og stuðst hefur verið við kenningar Dr. Claudiu Black Ph. D og Dr. Roberts Ackerman Ph.D sem hafa áratugareynslu af meðferð barna og unglinga. Jafnframt hefur mikið af íslensku efni verið fléttað inn í námskeiðin sem hafa reynst vel við meðferð barna og foreldra þeirra. Á námskeiðinu er boðið upp á ráðleggingar og handleiðslu fyrir foreldra og tilvísun á sérfræðiþjónustu. Markmið námskeiðsins er að auka jákvætt sjálfsmat barna, virkja samskipti og rækta þá hæfileika sem hjálpa þeim að leysa vandamál og komast ósködduð í gegnum lífið. Og síðast en ekki síst, að skemmta sér. „Hér er ekki verið að fást við heimilislíf barnanna eða takast á við vandamál foreldra þeirra. Heldur er einungis verið að ræða tilfinningar barnanna og þeim bent á að þau geti ekki breytt aðstæðum heldur einungis lært að takast á við þær á uppbyggilegan hátt”, Segir Berglind. Félagsmálastofnun Reykjanesbæjar hefur í hyggju að bjóða upp á fleiri námskeið í framtíðinni í samvinnu við Vímulausa æsku og má þar nefna námskeið fyrir börn og unglinga um agavandamál en þau verða auglýst síðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024