Nafnarím lengi verið áhugasvið
Gefur út sína aðra bók.
Eflaust kannast margir við setningar eins og „Allir krakkarnir brunuðu niður brekkuna nema Viðar, hann fór til hliðar“. Út er komin bókin Allir krakkarnir II sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Allir krakkarnir sem kom út árið 1993. Í þessum bókum hefur slíkum setningum verið safnað saman.
Gunnar Kr. Sigurjónsson, höfundur bókarinnar, er fæddur í Njarðvík og á ættir að rekja í Hafnir. „Mamma og pabbi, Sigurjón Vilhjálmsson og Guðrún Arnórs, byggðu Borgarveg 21 í Njarðvík og þar bjó ég fyrstu fjögur ár ævi minnar.“ Afi Gunnars var Vilhjálmur Hinrik Ívarsson, fréttastjóri úr Merkinesi í Höfnum, sem einnig var faðir systkinanna Ellýjar og Vilhjálms.
Dönsk áhrif
Spurður um tildrög bókarinnar segir Gunnar að þegar hann var í Danmörku árið 1982 keypti hann þrjár danskar bækur með nafnarími og las þær og hafði gaman af. Rúmum áratug síðar, árið 1993, heyrði hann í morgunútvarpi Bylgjunnar, sem m.a. Þorgeir Ástvaldsson sá um, að verið var að fjalla um íslenskt nafnarím á svipaðan hátt. Hlustendur voru hvattir til að hringja eða senda inn fleiri slík rím. „Þá mundi ég eftir dönsku bókunum og ákvað að skrá niður samsetningar á íslensku nafnarími og gefa út bókina Allir krakkarnir. Í henni voru um 400 slík rím og hún seldist upp.“ segir Gunnar.
Notar samþykkt nöfn af Mannanafnanefnd
Á undanförnum árum segist Gunnar hafa tekið eftir að þessi nafnarím dúkka öðru hverju upp og síðast á vegg Fésbókarhópsins Fimmaurabrandarafjelagið. Í kjölfarið fékk Gunnar hvatningu um að gefa út nýja bók og hafa rjómann af gömlu bókinni í henni líka. „Munurinn á vinnuferlinu núna og fyrir 20 árum var aðallega sá að áður notaðist ég við símaskrána til að búa til nafnarím en núna netlista yfir samþykkt nöfn af Mannanafnanefnd,“ segir Gunnar og hlær. Bætir svo við að bókin hafi þó verið unnin á frekar skömmum tíma. Búið er að prenta 2000 eintök sem verða seld í öllum bókabúðum og helstu verslunum sem selja bækur.