Næra andann á Írlandi
María Magdalena Birgisdóttir Olsen og Sigrún Júlía Hansdóttir úr Reykjanesbæ verða fararstjórar í kvennaferð til Dublin 20. til 24. október næstkomandi. Sigrún Júlía er myndlista- og hugleiðslukennari og María jógakennari. Að sögn Maríu verður ferðin fyrir allar konur sem vilja vera góðar við sig. „Þessi ferð verður einstök upplifun, að vera í hópi kvenna sem vilja næra sál og líkama í stórkostlega fallegu umhverfi. Þarna geta konur átt nokkra daga fyrir sig sjálfar, litið inn á við og nært sig með hugleiðslu, sköpun og jóga,“ segir María.
Ferðin er á vegum Írlandsferða og mun hópurinn gista á hóteli við rætur Wicklow fjallanna suður af Dublin. Síðustu nóttina verður gist á hóteli í Dublin. Meðal þess sem er á dagskrá hópsins er að skoða Avoca vefnaðarmylluna og kíkja í Kildare merkjavöruþorpið. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu ferðarinnar Skapað frá hjartanu í annasömum heimi - Írland í október.