Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Myndirnar á skilríkjunum eins og nýjar eftir 34 ár í jörð
Guðmundur Steindórsson með skilríkin sem komu úr jörð í Njarðvík eftir að hafa tapast með veski í blómabeð við Klapparstíg 10 árið 1983. Myndirnar á skilríkjunum voru teknar þegar Guðmundur var 15 ára en hann er fimmtugur í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárð
Föstudagur 25. ágúst 2017 kl. 12:00

Myndirnar á skilríkjunum eins og nýjar eftir 34 ár í jörð

- Guðmundur Steindórsson týndi veski og skilríkjum í Njarðvík árið 1983

Veski með nafnskírteini og ökuskírteini fannst við uppgröft á Klapparstíg í Njarðvík. Guðmundur Steindórsson bifreiðastjóri tapaði veskinu árið 1983. Þá var hann 16 ára og fór allra sinna ferða á skellinöðru. Það má segja að veskið hafi verið gleymt og grafið!

Í veskinu voru einmitt ökuréttindi sem staðfestu að Guðmundur mætti aka léttu bifhjóli og einnig nafnskírteini, sem voru algeng á þessum tíma. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Guðmundur hafa haldið að hann hafi týnt veskinu þegar hann hafi brunað eftir Borgarveginum í Njarðvík á skellinöðrunni sinni. Hann hafi leitað að veskinu en ekki fundið.

Veskið, sem var merkt Verzlunarbankanum, kom hins vegar í leitirnar á dögunum við Klapparstíg 10 í Njarðvík. Þar bjó Guðmundur í 10 ár. Hann hallast nú að því að veskið hafi dottið í blómabeð og svo grafist í mold.
Þegar veskið fannst var það orðið mjög morkið og illa farið. Auk skilríkjanna tveggja voru tvö önnur plastkort í veskinu en voru orðin illa farin.

Það kom Guðmundi mjög á óvart hversu heilleg skilríkin voru og myndirnar í þeim eins og nýjar, þrátt fyrir á fjórða áratug neðanjarðar. Ökuskírteinið og nafnskírteinið eru brædd í plast og þessi merkilegi fundur því ágætt dæmi um það hversu plast er lengi að brotna niður í náttúrunni.

Skilríkin tvö eru enn í fullu gildi. Skellinöðruréttindin eru enn til staðar þó svo langt sé síðan Guðmundur hafi síðast brunað um Njarðvíkur á slíkum fáki. Guðmundur er í dag bifreiðastjóri og ekur m.a. strætisvagni á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Guðmundur er með bifreiðastjórablóð í æðum en faðir hans heitinn, Steindór Sigurðsson, var einnig bifreiðastjóri og rak eigið fyrirtæki með rútur og síðar hjá Sérleyfisbílum Keflavíkur, SBK.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Veskið var orðið morkið en skilríkin voru mjög heilleg.