Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Myndi bjóða gestum í hesthúsið og reiðtúr á Mánagrund
Laugardagur 4. september 2021 kl. 09:00

Myndi bjóða gestum í hesthúsið og reiðtúr á Mánagrund

Helga Hildur Snorradóttir er skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ

Helga Hildur Snorradóttir er skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ og mikil hesta- og göngukona. Það kemur því ekki á óvart að hestaferð og gönguferðir séu ofarlega á listanum hennar yfir skemmtilegheit í sumar. Skólastarfið leggst vel í hana.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Sumarið var ansi ljúft þrátt fyrir sólarleysi hér á suðvesturhorninu. Það markverðasta sem ég gerði var að fara í fimm daga hestaferð með góðum vinum. Við fórum svokallaðan Tindfjallahring að Fjallabaki. Ég fór í tvær fjallgöngur, sú fyrri var tveggja daga ganga á Hengilssvæðinu í roki og rigningu með æskuvinkonunum. Seinni gangan var dagsferð að Grænahrygg. Mögnuð ganga og landslagið stórfenglegt, algjört náttúruundur. Ég fór síðan í frekar óvænta helgarferð í góða veðrið á Akureyri. Ég var að bugast á sólarleysinu einn föstudag í ágúst og í hádeginu hringdi ég í eiginmanninn og bað hann um að skutlast með mér norður yfir helgina sem hann var að sjálfsögðu til í.“

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

„Ég á svo sem ekki neinn uppáhaldsstað en Grænihryggur er magnaður og það er einstaklega  fallegt í Ásbyrgi, Stuðlagili, Þórsmörk og á Húsavík. Merkigil í Skagafirði og Löngufjörur eru staðir sem standa upp úr í hestaferðum.“

Hvernig myndir þú skipuleggja góða dagsferð með gesti á Suðurnesjum?

„Ég myndi eflaust bjóða mínum gestum í hesthúsið og í góðan reiðtúr á Mánagrund. Ef svo ólíklega vildi til að viðkomandi hefði ekki áhuga á að fara á hestbak með mér þá er ganga um fallegu strandleiðina okkar í Reykjanesbæ mjög skemmtileg. Heimsækja Siggu skessu í leiðinni og fara jafnvel rúnt út á Garðskaga og Stafnesið. Gosið í Fagradalsfjalli kemur líka sterkt inn og þá væri ekki amalegt að enda í Bláa lóninu.“

Hver eru stærstu málin í þínum skóla um þessar mundir?

„Við í Holtaskóla byrjum nýtt skólaár af krafti og erum full af bjartsýni og vonumst til að skólaárið verði sem eðlilegast. Við erum m.a. að byrjað að vinna í því að uppfæra skólastefnu Holtaskóla í tengslum við nýja menntastefnu Reykjanesbæjar. Einnig erum við að byrja með svokallaðar smiðjur á yngsta- og miðstigi og það verður gaman að fylgjast með verkefninu vaxa og þróast. Á unglingastigi höldum við áfram að þróa samþættingu námsgreina með áherslu á tækni. Þar eru nemendur m.a. að nýta sér hlaðvarp og myndvinnslu í kennslustundum.“