Myndband: Gömul bílskúrsbönd dusta rykið af rokkinu
Suðurnesjasveitir rifja upp gamla takta á Paddy's
Sögufrægar hljómsveitir af Suðurnesjum vakna úr löngum dvala og leiða saman hesta sína á Paddy's föstudaginn 24. mars. Um er að ræða hljómsveitir sem voru starfandi í kringum aldamótin síðustu en lífleg rokksena var þá á svæðinu. Hljómsveitirnar sem troða upp á þessu fyrsta kvöldi af vonandi nokkrum eru: Skvaldur, Ritz, Mystery Boy og Tommygun Preachers. Tónleikar hefjast kl. 22:00 og er aðgangseyrir er 1.000 kr.
Árni Jóhannsson frá Sögufélagi Suðurnesja flytur erindi á tónleikunum um hljómsveitirnar út frá sagnfræðilegu sjónarmiði.
Víkurfréttir litu við á æfingu hjá Tommygun í gærkvöldi þar sem þeir voru þéttir sem aldrei fyrr. Viðtal við piltana má sjá í Sjónvarpi Víkurfrétta á fimmtudag en þar ræða þeir m.a. tónlistarsenuna í kringum aldamótin allt til dagsins í dag. (Sjá myndband efst í frétt.)