Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Myndavélin er góður ferðafélagi
Ólafur Andri Magnússon tók myndina af Andra.
Miðvikudagur 10. apríl 2013 kl. 07:10

Myndavélin er góður ferðafélagi

Andri Berg er efnilegur ljósmyndari.

Andri Berg Ágústsson er ungur og efnilegur ljósmyndari. Andri sem er 15 ára Keflvíkingur hefur verið að mynda fjöll og firnindi um nokkurt skeið en hann smitaðist ungur af ljósmyndabakteríunni sem hefur átt hug hans allan síðan þá.

Andri fékk fyrst áhuga á ljósmyndun þegar hann var 13 ára. Þá fór hann að mynda með systur sinni sem einnig er áhugaljósmyndari og áhuginn kviknaði í kjölfarið. Andri fjárfesti fljótlega í fyrstu myndavélinni en sú var af gerðinni Canon sx30 is. Þar komu fermingarpeningarnir að góðum notum. Nú er Andri kominn með aðra öflugri græju en sú vél kallast Canon 60D. Einnig á Andri flöss og alls kyns græjur sem fylgja ljósmyndun. Hann segir að pabbi hjálpi til við að fjármagna þetta allt saman. „Pabbi keypti nýju vélina og hann segist eiga hana,“ en Andri er sennilega mun duglegri en pabbi að nota vélina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Andri ferðast mikið með fjölskyldu sinni og jafnan er þá myndavélin besti ferðafélaginn. Reglulega hefur Andri farið í jeppaferðir með pabba sínum, eða allt frá fimm ára aldri. „Áhugamálin eru m.a. að fara í jeppaferðir, veiði á sumrin og fara í fjallgöngur,“ en Andri segir fátt skemmtilegra en að ferðast á íslenska hálendinu. Andri er einnig meðlimur í unglingadeild björgunarsveitarinnar Suðurnes, þar er reglulega farið í ferðalaög.
Hann segir töluverðan tíma fara í ljósmyndun en hann hefur tekið að sér að mynda ýmislegt fyrir fjölskyldu og kunningja í gegnum tíðina.

Youtube sér um kennsluna

Andri á sér mörg önnur áhugamál eins og áður segir en hann ætlar sér líklega að verða verk- eða tæknifræðingur þegar fram líða stundir. Eins og ungu fólki sæmir nú til dags þá hefur Andri lært flest allt sem hann kann í ljósmyndun í gegnum internetið. Þá er það helst youtube sem sér um fræðsluna. Einnig sækir Andri ráð frá vinum og fjölskyldu.

Andri kom sér upp facebook-síðu þar sem hann deilir myndunum sínum. „Bara langaði að koma mér á framfæri og leyfa fólki að sjá myndirnar mínar,“ segir Andri en hann segir viðbrögð fólks við síðunni hafa verið mjög góð. Andri segir líklegt að ljósmyndunin verði áfram áhugamál en þó er aldrei að vita hvað þessi efnilegi piltur tekur sér fyrir hendur. Myndir Andra má finna undir heitinu ABÁ Photography á facebook.

Öxarárfoss á Þingvöllum.