Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Myllarnir stóðu sig vel í Noregi
Sunnudagur 18. desember 2016 kl. 06:00

Myllarnir stóðu sig vel í Noregi

-í fyrsta skipti sem Ísland sendi lið í Lego keppnina

Átta nemendur úr 7. bekk í Myllubakkaskóla í Keflavík tóku þátt fyrir hönd Íslands í keppninni „First Lego League Scandinavia“ fyrstu helgina í desember í Bodø í Noregi. Þetta var í fyrsta skipti sem Ísland sendi lið í þessa keppni en lið Myllubakkaskóla hafði þremur vikum áður sigrað í keppninni hér á landi og þar með unnið sér inn þátttökurétt í þessari keppni.

Í keppninni voru lið frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og eitt lið frá Færeyjum ásamt liði Íslands. Keppendur voru rúmlega 500 á aldrinum 10 til 16 ára og í 47 liðum. Þema keppninnar í ár var samskipti manna og dýra(Animal allies) en á hverju ári er nýtt þema. Keppnin gengur út á það að byggja róbót og forrita hann til að leysa þrautir sem gerðar eru úr Lego. Róbótinn fær svo þrjár tilraunir til að skora sem flest stig á ákveðnum tíma. Einnig þurfa keppendur að vinna að rannsóknaverkefni þar sem unnið er út frá rannsóknarspurningu og kafað vel ofan í málið með því að taka viðtöl, gera kannanir, lesa alls kyns heimildir og prófa sig áfram. Rannsóknarverkefni liðs Myllubakkaskóla var „Er lausaganga katta vandamál?“ og hannaði liðið alveg nýtt tæki til þess að kettir kæmust síður inn um glugga hjá fólki. Rannsóknarverkefnið þurfti að kynna fyrir dómurum á frumlegan hátt og svo þurftu keppendur að svara spurningum dómara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keppendur komu einnig fram fyrir dómara með róbótinn og þurftu að útskýra fyrir þeim hvernig hann virkaði, hvaða tæknieiginleika hann hefði, hvaða þrautir hann gæti leyst og hvernig hann væri forritaður. Dómarar könnuðu líka liðsheildina, hvernig krakkarnir unnu sem ein heild og hvernig þau skiptu verkum. Að lokum þurftu nemendur að markaðsetja sig og lausnina á vandanum úr rannsóknaverkefninu. Dómarar komu þá í markaðsbásinn sem við höfðum undirbúið og sett upp og létu spurningar dynja á okkur. Þessi hluti keppninnar var alveg nýr fyrir íslensku keppendunum enda var hann ekki hluti af keppninni á Íslandi. Nemendur Myllubakkaskóla stóðu sig mjög vel í öllum þáttum keppninnar. Liðið lenti í 10. sæti í róbót-kappleiknum af liðunum 47 en liðin fá svo ekki að vita hvernig aðrir þættir keppninnar gengu nema fjögur efstu liðin sem tilnefnd eru í hverjum flokki. 10. sæti af 47 er mjög góður árangur miðað við að lið Myllubakkaskóla er ungt og var að taka í fyrsta skiptið þátt í First Lego League.

Fyrir hönd liðsins

Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir

Íris Dröfn Halldórsdóttir