Munu heiðra minningu frænda á Vopnafirði
Hvað ætla Suðurnesjamenn að gera um Verslunarmannahelgi?
Víkurfréttir spurðu nokkra Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar. Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar er búsettur í Grindavík. Hann mun leggja leið sína austur þessa verslunnarmannahelgina þar sem hann ætlar að njóta helgarinnar með fjölskyldu og vinum.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Verslunarmannahelginni ætla ég að eyða austur á Vopnafirði í faðmi fjölskyldu minnar og vina. Minningarathöfn um föðurbróðir minn sem lést fyrr í sumar mun fara fram á laugardeginum að Refstað í Vopnafirði þaðan sem ég er ættaður. Þar mun stórfjölskyldan hittast og heiðra minningu hans en hann lést langt fyrir aldur fram úr krabbameini.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Ég hef lifað margar eftirminnilegar verslunarmannahelgar ekki síst þegar maður var ungur að árum og sótti Atlavík á hverju ári þá var nú stundum tekið hressilega á því. En það stendur engin ein endilega uppúr allar hafa þær verið skemmtilegar hver á sinn hátt.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem mér finnst ómissandi um þessa helgi fyrir utan gott veður að sjálfsögðu er að geta
verið með fjölskyldunni. Þetta er stærsta ferðahelgi ársins og það sem mér finnst að ætti að einkenna þessa helgi öðru fremur er að allir sem leggja land undir fót séu vel undirbúnir. Keyri varlega og hugi vel að náunga sínum og umhverfi. Ekkert gleður mann meira en að heyra í fréttum eftir verslunarmannahelgina að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig og allir hafi komist heilir heim.