Mun Of Monsters and Men eiga heitasta lagið í Ástralíu?
Hljómsveitin heimsfræga, Of Monsters and Men, sem að hluta er skipuð tónlistarfólki úr Garðinum og Reykjanesbæ, er talin líklegust til að eiga „Heitasta lagið í Ástralíu 2012“. Kosning á heitasta lagi ársins þar í landi stendur yfir og er lagið ‚Little Talks‘ talið líklegast til að hreppa heiðurinn sem heitasta lagið.
Fjölmörg lög koma til greina frá tónlistarmönnum um allan heim. Þar má meðal annars nefna Calvin Harris, Alt J, Mumford & Sons, The Temper Trap, The Black Keys og Macklemore. Síðastnefnda hljómsveitin er talin líklegust til að skáka íslensku sveitinni en lagið ‚Thrift Shop‘ fær stuðulinn 2,75 hjá veðmögnurum en ‚Little Talks‘ er líklegast með 2,20 í stuðul. Kosið er á heimasíðu ABC í Ástralíu.
Lagið ‚Little Talks‘ kemst á listann þrátt fyrir að vera gefið út í desember á síðasta ári. Fyrirheit eru fyrir því að lög sem gefin út eru út árinu á undan fari með sigur af hólmi í kosningunni. Lagið ‚Knights of Cydonia‘ með bresku sveitinni Muse vann t.a.m. þessa kosningu árið 2007 þrátt fyrir að það lag hafi komið út sumarið 2006.
Hér er hægt að fræðast betur um þessar kosningu. Hér að neðan eru þau tvö lög sem þykja líklegust sem „Heitasta lagið í Ástralíu 2012“.