Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mun ekki flytja aftur til Grindavíkur í bráð
Morten segist hafa lent í óskemmtilegri uppákomu þegar hann og tengdaforeldrar hans ætluðu að sækja rollurnar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 18. janúar 2024 kl. 06:10

Mun ekki flytja aftur til Grindavíkur í bráð

„Vonandi munu stjórnvöld virkilega girða sig í brók núna,“ segir Morten Þór Szmiedowicz sem missti húsið sitt í eldgosinu.

„Við flytjum hugsanlega til Grindavíkur aftur eftir fimm til tíu ár,“ segir Morten Þór Szmiedowicz en hús hans og fjölskyldu hans varð hrauninu að bráð í eldgosinu á sunnudaginn. Fjölskyldan getur ekki hugsað sér að setjast að í Grindavík strax og er farin að kíkja í kringum sig.

Morten var í pílumóti með syni sínum þegar seinni sprungan opnaðist og var í raun feginn að vera frekar þar í stað þess að horfa á húsið sitt brenna. „Mér líður bara nokkuð vel. Ég er alla vega kominn með skýrar línur í mín mál. Nú fæ ég bara húsið mitt bætt en á sama tíma horfa aðrir Grindvíkingar upp á að það er að fara frysta og húsin eru ekki upphituð og þess vegna miklar líkur á að lagnir frostspringi og það er mikið tjón. Munu tryggingarnar sjá um það tjón? Vonandi en ég segi fyrir mitt leyti að þetta er ákveðinn léttir, eins furðulegt og það má hljóma. Það var auðvitað ömurlegt að sjá húsið sitt brenna, hús sem ég tók þátt í að smíða en núna tekur einfaldlega nýr kafli við hjá okkur fjölskyldunni, við munum ekki byggja aftur í Grindavík.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Morten vill sjá íslensk stjórnvöld gera miklu meira fyrir Grindvíkinga. „Mér finnst stuðningurinn búinn að vera afskaplega lélegur. Þessi leigustyrkur er bara til málamynda finnst mér. Bara fyrsta mánuðinn þurfti ég eyða u.þ.b. hálfri milljón í eldsneyti, við erum búin að þurfa flytja margoft, við erum í fjárbúskap svo þetta hefur verið erfitt. Af hverju var ekki hægt að setja Grindvíkinga á dagpeninga eins og embættismenn eru með? Ekkert mál að hjálpa alþingismönnum sem eru með svimandi há laun, láta þá fá dagpeninga en það er ekki hægt að gera það fyrir okkur Grindvíkinga á þessum viðsjárverðu tímum? Vonandi munu stjórnvöld virkilega girða sig í brók núna,“ segir Morten.

Fjölskyldan er farin að líta í kringum sig en hver er draumastaðurinn? „Ég held að mér lítist best á Þorlákshöfn. Við erum með rollurnar okkar í Selvoginum, það eru ekki nema tíu mínútur að skjótast þangað, íþróttalífið er öflugt í Þorlákshöfn, þar er góð höfn, þetta er lítið fallegt samfélag sem svipar mikið til Grindavíkur. Ég er búinn að vera að skoða fasteignir síðan rýmingin átti sér stað í nóvember, bara til að fylgjast með. Nú setjumst við fjölskyldan bara yfir þetta og tökum ákvörðun saman. Hvort og hvenær við flytjum aftur kemur bara í ljós, í síðasta lagi munum við gera það þegar börnin verða flogin úr hreiðrinu en við myndum alls ekki verða róleg með börnin úti að leika, eins og ástandið er núna í Grindavík.“

Morten segist hafa lent í óskemmtilegri uppákomu þegar hann og tengdaforeldrar hans ætluðu að sækja rollurnar.„Tengdamóðir mín hringdi í mig eftir hádegi og bað mig um að koma með þeim Grétari að sækja rollurnar okkar, hún var búin að vera í samskiptum við yfirvöld og var komin með munnlegt leyfi til þess. Við fórum Nesveginn til Grindavíkur, gerðum grein fyrir okkur á lokunarpósti og það gekk allt saman vel en þegar við vorum komin inn í Grindavík vorum við tekin tali af sérsveitarlögreglufólki en skilaboðin höfðu ekki borist til þeirra. Við margreyndum að gera grein fyrir okkar leyfi en allt kom fyrir ekki, við þurftum að yfirgefa bæinn. Ég viðurkenni fúslega að það hreinlega sauð á okkur á leiðinni og við ákváðum að koma við í samhæfingarmiðstöðinni í Reykjanesbæ og reyna fá úrlausn okkar mála. Við reyndum að vera kurteis en viðmótið sem mætti okkur var ekki jákvætt að okkar mati og þar sem þráðurinn var stuttur í okkur fyrir, tókst okkur ekki mjög vel að halda kúlinu. Þórlaug sagði lögreglufólkinu að ég hefði verið að missa húsið mitt og hún var spurð hvaða hús það hefði verið og þá snappaði ég endanlega, héldu þau að við værum að ljúga eða hvað! Ég fór síðan út, viðraði hundinn og reyndi að ná mér niður og þá kom almennilegur lögreglumaður og ræddi við mig, sagði að þau myndu gera sitt besta til að þetta myndi ganga upp hjá okkur. Það gekk, við fengum að fara aftur inn í Grindavík og sækja rollurnar okkar, fórum svo Suðurströndina til baka og komum kindunum okkar inn í fjárhúsið í Selvoginum. Við vorum komin heim um miðnætti og vorum fljót að sofna eftir verulega erfiðan dag,“ sagði Morten að lokum.