Mosi fæddist heima í stofu
Sæunn Alda Öldudóttir og Haraldur Haraldsson eignuðust soninn Mosa í sumar og fór fæðingin fram í þægilegu umhverfi heimilis þeirra. Fyrir átti Sæunn eina dóttur og Haraldur tvö börn sem ætluðu öll að vera viðstödd fæðingu litla bróður síns.
„Þegar ég gekk með mitt fyrsta barn, þá var ég átján að verða nítján ára og vissi lítið um fæðingar,“ segir Sæunn í upphafi samtals okkar. „Þá var hún Margrét Knútsdóttir, sem er líka meðgöngujógakennari, að klára lokaritgerðina sína í ljósmóðurnáminu og hún tók að sér fjögur pör þar sem hún fór yfirnáttúrulegar fæðingar, andlegan og líkamlegan undirbúning fyrir fæðinguna. Ég hafði líka lært hjá henni í jóga hvað öndun skiptir miklu máli svo ég tileinkaði mér svona náttúrulegt ferli mjög seint á síðustu meðgöngu og átti svo alveg dásamlega fæðingu á HSS. Það er í raun ekkert út á hana að setja, það gekk allt vel og þurfti engin inngrip.
Það er þessi flutningur við að koma sér á fæðingardeildina og vera svo jafnvel send aftur heim – það er kannski þessi óvissa sem truflaði mig svolítið. Ég fór tvisvar á fæðingardeildina og var send tvisvar heim, svo líka að koma sér heim eftir fæðingu. Mér fannst það svolítið truflandi.“
Stóra systir hans Mosa er orðin átta ára gömul og Sæunn segist hafa verið búin að hugsa það lengi að hana langaði að endurtaka leikinn. „Af því það að eignast barn er ótrúleg upplifun, þannig að þegar hann kom undir þá fórum við að ræða það hvar við vildu fæða.
„Þig langaði að eiga heima,“ segir Haraldur og heldur áfram; „og það fyrsta sem fólk spyr alltaf er: „Hvað ef eitthvað gerist?“ Þú veist, þessar pælingar. Maður þarf bara að kynna sér þetta því að fæða heima er alveg jafn öruggt. Þetta er bara önnur nálgun. Þú veist fyrirfram að það eru ekki sömu úrræði.“
Sæunn bætir við: „Það er alveg jafn öruggt fyrir barn að fæðast heima eins og á spítala en móður heilsast yfirleitt mikið betur.“
Bæði börn Haraldar voru tekin með keisaraskurði. „Fyrri fæðingin endaði í bráðakeisara en í þeirri seinni var fæðingin búin að taka um fjörutíu tíma þegar ákveðið var að fara í keisara. Það er rosalega langur tími og ég held að við höfum farið í gegnum fjórar vaktir, þ.e.a.s. við byrjuðum og enduðum á sömu vaktinni. Þær voru alveg fínar og allt það en það er mjög skrítið að vera bara á einhverju vaktakerfi á þessari stundu.“
Var ekki alveg á því að vera með ljósmóður
„Ég var ekkert alveg á því að vera með ljósmóður með mér í fæðingunni,“ segir Sæunn. „Haraldur var hins vegar á annari blaðsíðu þannig að ég var svolítið að forðast það í mæðraverndinni að nefna við ljósmæðurnar að ég ætlaði að eiga heima. Þegar ég loksins minntist á það bentu þær mér á Lífið, heimaljósmæðurnar, og ég samþykkti að þær gætu komið heim og spjallað aðeins við okkur. Þær gætu þá allavega lánað okkur fæðingarlaug. Mér fannst mjög gott að geta sagt við þær að þetta væri mín fæðing, ég er fæða og mér finnst ég hafa fullan rétt á að segja hvernig ég vil hafa hlutina.“
Þegar heimaljósmæðurnar komu til þeirra sagði Sæunn þeim að hún væri ekki viss hvort hún vildi hafa þær viðstaddar fæðinguna en það væri gott að geta hringt í þær ef það væri eitthvað sem hún væri óörugg með.
„Þær í rauninni hlusta á allt en létu okkur eðlilega vita að ábyrgðin væri okkar, yrði þá ekki þeirra,“ segir Haraldur. „Það var náttúrlega sjálfgefið en svo fórum við bara yfir allt í sameiningu og þær voru alveg yndislegar.“
„Ef eitthvað kemur upp á er það yfirleitt móðirin sem er yrst til að uppgötva það – og hún lætur vita ef hún þarf aðstoð. Við erum svo heppin hér á Íslandi að það er alltaf stutt í næsta spítala,“ segir Sæunn. „Þegar ég var að fæða hér niður á HSS þá var enginn svæfingalæknir, það var enginn skurðlæknir – þannig að það var alltaf sjúkrabíll í bæinn ef upp kæmi sú staða. Ég meina, það er jafnlangt héðan og af HSS niður á Landspítala.“
„Það var einmitt eitt af því sem við töluðum um,“ bætir Haraldur við. „Þeir yrðu örugglega fljótari að bruna niður Aðalgötuna til að sækja okkar hingað en niður á HSS.“
Yndisleg upplifun
Sæunn átti dóttur sína aðeins fyrir settan tíma og hún gerði ráð fyrir að það yrði svipað með seinni fæðinguna. „Bara ljúka þessu af, ekkert vesen. Svo kom 39. vika, svo kom 40. vika og sú 41. og ekkert að frétta. Við búin að bíða í allt sumar, Haraldur var í sumarfríi en hann er kennari, og ég ákveð að bruna upp í Kjós til systur minnar sem býr þar. Ég var búin að bíða og bíða í allt sumar og ég bara nennti þessu ekki lengur. Svo við fengum næturpössun fyrir börnin, ég fer upp í bústað og Haraldur fær langþráða hvíld – einn heima, engin kona og engin börn. Ég var rétt komin upp í bústað þegar eitthvað fer af stað og skömmu síðar missi ég vatnið svo systir mín skutlaði mér heim.
Þegar ég kom heim var búið að kveikja á kertum og við mér tekur þetta ótrúlega notalega umhverfi. Það var mjög gott að fá bara að vera í verkjum hér heima og þurfa ekkert að fara út í bíl til og eitthvað að raska rónni. Það líka hægir á ferlinu ef þú ert á leiðinni eitthvað annað í stað þess að klára það sem líkaminn er að gera. Maður slakar betur á þegar maður er í sínu umhverfi, svo fæðir maður hann hérna og labbar svo bara inn í herbergi.“
Haraldur segir að ljósmæðurnar hafi tekið fullt tillit til allra þeirra óska, þær héldu sig til hlés enda vildi Sæunn ekki endalaust tékk heldur að leyfa ferlinu að hafa sinn gang. „Hún sat bara hér í eldhúskróknum stærstan hluta tímans og sinnti sínu, hún var bara til taks sem er náttúrlega bara frábært.“
Funduð þið fyrir miklum fordómum gagnvart þessu?
„Já og það er aðalástæðan fyrir því að við vorum tilbúin að vera í þessu viðtali. Okkur finnst mjög mikilvægt að fólk mæti skilningi ef það kýs að fæða heima. Við heyrum alltaf hryllingssögurnar af fæðingum en það fer miklu minna fyrir þessu eðlilegu og fallegu fæðingarsögum. Okkar nánustu voru flestir mjög smeykir og reyndu að tala okkur ofan af því að halda þessu til streytu. Það eru til rannsóknir sem sýna það að mæðrum heilsast betur þegar þær fæða í sínu umhverfi. Oftast þegar eitthvað fer úrskeiðis er það vegna þess að konan er ekki búin að ákveða hvernig þetta verður, fæðingin fer hratt af stað og það fer allt í baklás því þær treysta á að kerfið grípi sig.“
„Andlegi undirbúningurinn er allt í þessu,“ bætir Haraldur við. „Þú veist hvað þú ert að fara út í – þú færð enga mænudeyfingu og ert undir það búin í stað þess að þiggja hana kannski af því að hún er í boði.“
„Sem er inngrip og um leið og þú ert komin inn á stofnun eru miklu meiri líkur á inngripi,“ segir Sæunn, „og að þú þiggir frekar inngrip inn á stofnun þar sem þér líður kannski ekki vel. Hvítir veggir, skær ljós, fólk að koma og fara – alltaf eitthvað áreiti. Eins og dýrin gera, þau fara í felur þegar þau eignast sín afkvæmi og eignast þau í friði. Það var alveg eins hérna, það var engin að koma og trufla. Við höfðum kyrrð og ró og töluðum helst ekki, nema þá í stuttum setningum og hálfhvísluðumst á. Þetta var hálfgerð íhugun.“
Fordómar byggðir á fáfræði
Dóttir Sæunnar og mágkona hennar voru viðstaddar fæðinguna en upphaflega stóð til að börnin yrðu öll viðstödd. „Það endaði á að eitt barnið var viðstatt og mágkona mín annaðist hana á meðan á því stóð. Hún er hugleiðslukennari og hefur alla tíð verið ofboðslega hrædd við fæðingar. Mamma mágkonu minnar hefur alltaf talað um fæðingu hennar sem ofboðslegt trauma en þær eru bandarískar og hún hafði engar tryggingar þegar hún eignaðist hana. Þetta er dramatískasta fæðing sem ég hef nokkurn tímann heyrt af,“ segir Sæunn. „Það er fyrst núna, eftir að hafa verið viðstödd fæðinguna okkar, að hún segist vera tilbúin í að eiga barn og hún og systir mín eru í fæðingarferli núna. Þetta er það sem hún þurfti að sjá til að þora.“
„Ég upplifði í sjálfu sér enga fordóma sem slíka, kannski meiri forvitni einhverskonar og kannski í bland einhverjar áhyggjur af manni,“ segir Haraldur. „Það var alltaf verið að velta upp: „Hvað ef eitthvað gerist?“ – en það þurfa ekki allir að fæða inn á Landspítala og hér er lítið annað gert en að skutla þér þangað ef eitthvað kemur upp á.“
„Ég hef líka fengið spurninguna: „Máttu fæða heima?“ segir Sæunn. „Kerfið á ekki meðgönguna mína, kerfið á ekki fæðinguna mína, á ekki líkama minn. Þetta er minn líkami og það er valdeflandi að fæða barn en það er ótrúlega valdeflandi að fæða barn og stjórna því. Konur missa mjög fljótt á fæðingunni sinni ef þær eru komnar inn á stofnun.“
„Kerfið býður upp á svo mikið af inngripum,“ bætir Haraldur við. „Miðað við mína fyrri reynslu af fæðingum var mikið um inngrip sem voru í raun engin þörf á. Seinni fæðingin tók um fjörutíu tíma og það var endalaust verið að fá að þreifa, tékka á útvíkkun og svoleiðis – allir voru að meina vel. Þér líður ekkert eins og þú megir segja nei. Þú veist ekkert hvað er verið að gera – en ef þið sleppið því, hvað gerist? Þannig að það er ýmislegt sem þú hefur val um án þess að vita það, þú getur sagt nei en samt ertu gestur.“
„Það sagði mér enginn að ég gæti fætt heima,“ segir Sæunn. „Að konur hafi val, það vantar að kerfið láti vita að það sé hægt og það sé öruggt. Þú mátt fæða heima og þú mátt gera eins og þér líður vel með. Því það skiptir máli að líða vel, vera öruggur ...“
„... og vera búin fyrirfram að hugsa út hvernig þetta á að vera. Það var ekkert óvænt sem kom upp á. Allt var eftir okkar höfði,“ grípur Haraldur inn í.“
„Ég upplifði mig fullkomlega við stjórn. Með gott stuðningsnet, ég var búin að sjá þetta fyrir mér, búin að ræða við fólkið í kringum mig um hvernig ég vildi hafa þetta og það hlustuðu allir,“ segir Sæunn að lokum en þeirra fæðingarsaga er ótrúlega falleg og litli drengurinn þeirra er eiginlega fullkominn og virðist ekki hafa orðið meint af.