Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mörgum brá við auglýsingu um minningartónleika um Valdimar
Miðvikudagur 11. maí 2016 kl. 15:40

Mörgum brá við auglýsingu um minningartónleika um Valdimar

Eftir að útsendingu frá Eurovision lauk á RÚV í gærkvöld birtist á skjánum auglýsing um minningartónleika um Valdimar Guðmundsson, tónlistarmann. Margir tóku andköf við fréttir af mögulegu andláti hans en til allrar hamingju er hann sprelllifandi. Tilefni auglýsingarinnar er það að Valdimar ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst og leyfa fólki að fylgjast með undirbúningnum á netinu. Í maraþoninu ætlar hann að fara tíu kílómetra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valdimar fékk strax mikil viðbrögð við auglýsingunni og segir samfélagsmiðla sína hafa logað í kjölfarið. Sjálfum fannst honum hugmyndin að baki auglýsingunni strax góð. „Mér fannst þetta strax skemmtileg hugmynd sem ég vissi að myndi sjokkera fólk,“ segir hann. Þegar sú hugmynd kom upp að hann myndi verða andlit Reykjavíkurmaraþons í ár, leist honum þó ekkert of vel á það en eftir að hafa pælt meira í því og hvað hann þyrfti að gera fannst honum þetta ekkert mál.

Í október síðastliðnum setti Valdimar inn færslu á Facebook síðu sína um að hann hefði áhyggjur af holdafari sínu og ætlaði að gera eitthvað róttækt í málunum. Hugmyndina fékk hann eftir að hafa fengið martröð um að hann væri að deyja. Í viðtali við Kastljós stuttu eftir að hann birti færsluna sagði Valdimar frá því að hann hefði á þessum tíma verið veikur og með stíflað nef, auk þess að þjást af kæfisvefni. Þessa nótt gat hann varla andað og dreymdi að hann gæti ekki andað. Eftir nóttina vaknaði hann alveg útvinda og þreyttur. „Ég hugsaði með mér að ef þetta hefði verið aðeins dýpri svefn hefði ég getað verið dauður. Þetta var vakning fyrir mig því að ég varð hræddur. Þetta fékk mig til að hugsa meira um þetta og framtíðina,“ sagði Valdimar í viðtali við Kastljós í fyrra.

Síðan Valdimar setti færsluna á Facebook hefur hann stundað ræktina þar sem hann er með einkaþjálfara og hefur tekið mataræðið í gegn. Reykjavíkurmaraþonið verður því framhald á vegferð Valdimars sem hófst fyrir rúmu hálfi ári. Hægt verður að fylgjast með á vefnum minaskorun.is og á Facebook-síðunni Mín áskorun.

Hér má sjá myndband um undirbúning Valdimars fyrir Reykjavíkurmaraþon: