Mömmu sagt að búa ekki til annan Breivik
Ég hika ekki við að segja fólki að ég sé múslimi,” segir Azra Crnac.
Hin tvítuga Azra Crnac hefur búið á Íslandi alla sína ævi en er ættuð frá Bosníu. Áður en hún flutti til Keflavíkur árið 2011 bjó hún á Ólafsvík, þar sem hún ólst upp. Azra er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og starfar í Apóteki Suðurnesja.
Azra aðhyllist íslam eða múslimska trú en aðspurð um trúna segir hún hana snúast um frið og sátt. „Íslam snýst bara um það sama og önnur trúarbrögð. Að lifa í sátt og samlyndi og að koma vel fram við aðra. Þetta er ekki það sem margir halda.“
Orðið fyrir aðkasti á netinu
Hún segist persónulega ekki verða fyrir miklum fordómum, en þegar fólk komist að trúnni hennar breytist hlutirnir svolítið. „Ég er nefnilega svo einstaklega „heppin“ að ég er frekar hvít á hörund. Ég er ekkert frábrugðin öðrum Íslendingum, annað en það að ég er frekar dökkleit hvað varðar hárið og augun til dæmis. En svo þegar fólk veit hvað ég heiti eða á hvað ég trúi á þá breytist það stundum hvernig fólk lítur á mig. Ég upplifi alveg þessa fordóma, en þeir eru meira á bak við mig, á netinu. Fólk leyfir sér að segja svo margt þar. Ég hef alveg orðið fyrir aðkasti. Ef ég nefni eitt dæmi, þá sendi ákveðinn einstaklingur mömmu minni persónuleg skilaboð á facebook þar sem hún var beðin um að vera ekki að ala upp fleiri Breivik hér á landi og vísaði þá í mig. Þetta eru örugglega þau ummæli sem sitja hvað mest eftir í mér. En annars þegar ég upplifi fordómana í persónu þá er þeim oftast ekki beint til mín, heldur heyri ég fólk tala um aðra múslima til dæmis, án þess að það átti sig á því hver ég sé og hvaðan ég komi,“ segir hún.
Telur fjölmiðla hræða
Azra segir fréttamiðla hafa mikil áhrif á það hvernig fólk líti almennt á minnihlutahópa í samfélaginu. „Fyrirsagnir í fjölmiðlum eða það sem pólitíkusar segja hefur mikil áhrif á skoðanir fólks. Ef einhverjir hátt settir í samfélaginu tala niður til ákveðins hóps af fólki gefur það til kynna að það sé bara í lagi að gera það. Fréttamenn reyna líka oft að koma trúnni að þó hún skipti ekki máli. Ef ég myndi gera eitthvað af mér sem færi í fjölmiðla, hvort yrði fyrirsögnin; „Ung kona…“ eða „Ung, múslimsk kona…“? En svo hins vegar, ef einhver kristin, ung kona myndi gera eitthvað af sér væri hún bara talin eitthvað veik á geði vegna slæmrar æsku og titluð þannig í fjölmiðlum. Ef einhver pólitíkus á Íslandi myndi tala opinlega niður til samkynhneigðra yrði það aldrei leyft. Það myndi aldrei komast í gegn í okkar samfélagi. En samt einhvern veginn finnst sumu fólki í lagi að tala niður til innflytjenda, þó þeir hafi svo margt upp á að bjóða. Það þarf fólk alls staðar,“ segir Azra.
Kommentakerfin full af fordómum
Hún benti blaðamanni Víkurfrétta á grein sem hún hafði lesið fyrir stuttu sem fjallaði um það að meirihluti þeirra sem krafist væri gæsluvarðhalds yfir í Kaupmannahöfn væru útlendingar. „Af hverju er þetta frétt? Þetta yrði aldrei fréttnæmt ef um væri að ræða Dani í Kaupmannahöfn. Það er líka alveg örugglega hægt að sjá fjöldann allan af athugasemdum tengdar þessari grein frá fólki sem tekur undir þessa fordóma gagnvart útlendingum og þar er bókað ein athugasemd frá Sigurði, búsettum í Kaupmannahöfn, sem vill sko ekki fá fleiri útlendinga þangað. Þú getur ekki talað um þig sem einhvern Dana, þegar þú ert aðfluttur einstaklingur, og talað svo niður til hinna, sem kannski líta ekki alveg eins út og Danir, og talað um þá sem útlendinga.”
Azra segir trúna vera menningu sína og að hún skilgreini hana ekki. „Trúin mín er bara hluti af mér. Ég klæðist ekki búrku, ég drekk áfengi og ég djamma. Ég er bara mjög „venjuleg“. Ég er Íslendingur. Þó að foreldrar mínir séu frá öðru landi þá er ég fædd hérna og uppalin og ég hika ekki við að segja fólki að ég sé múslimi,” segir hún.
Vildi ekki rífast við stuðningsmenn Trump
Fyrir stuttu síðan var Azra að skemmta sér ásamt vinkonum sínum þar sem þær kynntust hópi af strákum frá Bandaríkjunum. Þegar einn þeirra spurði Özru hvort hún vildi ekki kíkja til Bandaríkjanna á næstunni svaraði hún því að hún hefði ekki áhuga á því sökum allra fordómanna sem múslimar í Bandaríkjunum verða fyrir þessa dagana vegna áróðurs forseta landsins og sagði stráknum að hún sjálf væri múslimi. „Hann bað mig bara vinsamlegast að vera ekki að ræða þetta við þá og að vera ekki að byrja með einhver leiðindi því vinir hans væru stuðningsmenn Donald Trump. Ég sætti mig bara við það. Ég nenni ekki að þurfa að rífast við einhvern fyrir það að vera sú sem ég er.“
Bjargar ekki heiminum á einni nóttu
Hún segir það oft vera betra að þegja heldur en að tjá sig um þessi mál. „Því miður er það bara svoleiðis. Þetta kemur líka oft frá einhverjum einstaklingum sem þú þekkir ekki og þá er þetta bara ekki þess virði. Það er svo leiðinlegt að upplifa að eitthvað sé ekki þess virði þegar það er baráttumál fyrir þig. Stundum þarf maður bara að hugsa um geðheilsuna sína og stíga til hliðar. Ég get ekki bjargað heiminum á einni nóttu. En ég hvet fólk til þess að skoða þetta með gagnrýnni hugsun, skoða hvað sé í gangi í heiminum. Því þegar þú lítur á þetta allt saman með opnum hug þá sérðu alla þessa klikkun sem er í gangi.“
Aðspurð út í það hvað Azra myndi segja við þá sem vitna í Kóraninn, sér til stuðnings, um að múslimsk trú sé slæm svarar hún blaðamanni fullum hálsi: „Einmitt, hvað segir Biblían?“